Himneskir bláberjasnúðar með kaffinu

Himneskir bláberjasnúðar sem steinliggja með kaffinu. Upplagt að nýta nýja …
Himneskir bláberjasnúðar sem steinliggja með kaffinu. Upplagt að nýta nýja uppskeru í þessa snúða. Ljósmynd/Linda Ben

Nú er uppskerutíminn og íslensku aðalbláberin fullþroskuð. Nýtínd íslensk aðalbláber eru hreint sælgæti og lag að nýta þau í baksturinn. Við á matarvefnum mælum með þessum himnesku bláberjasnúðum sem koma úr smiðju Lindu Ben uppskriftahöfundar sem heldur úti uppskriftasíðunni Linda Ben. Snúðarnir eru án eggja og mjólkurafurða og bragðast einstaklega vel, eru dúnmjúkir og ljúffengir. Í þeim er hafraskyr sem er einstaklega gott í bakstur og gefur deiginu gott bláberjabragð fyrir þá sem vilja fá berjabragðið beint í æð.

Í þessari uppskrift er deigið snúið saman og útbúinn er eins konar snúinn snúður. Linda ákvað að breyta til og er hrifin af þessu útliti. Hægt er að fylgjast með Lindu baka þessa dásamlegu snúða og trixinu hennar á Instagram hér fyrir neðan.

Bláberjasnúðar

  • 7 g þurrger
  • 200 ml volgt vatn
  • 150 ml hafraskyr með bláberjum frá Veru Örnudóttur
  • 80 g brætt jurta/vegan smjör
  • 450 g hveiti
  • 1 dl sykur
  • 1 tsk. salt
  • 250 g bláberjasulta
  • 1 msk. perlusykur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á að setja hafraskyrið í skál, hitið vatnið að suðu og hellið út í jógúrtina, blandið saman, en blandan á að vera volg. Bætið gerinu út í og hrærið.
  2. Setjið hveitið í skálina, bætið út í sykrinum og saltinu.
  3. Bræðið jurtasmjörið og hellið í skálina, hnoðið öllu vel saman.
  4. Látið deigið hefast í 1–1 ½ klukkustund eða þangað til deigið hefur tvöfaldast að stærð.
  5. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir- og yfirhita.
  6. Þegar deigið hefur hefast, dreifið þá svolitlu af hveiti á borðið, takið deigið úr skálinni og fletjið það út í um það bil 20×40 cm flöt.
  7. Smyrjið bláberjasultunni á deigið.
  8. Frá lengri hliðunum, brjótið upp á deigið þannig að deigið leggist saman og endarnir mætist í miðju.
  9. Skerið lengjuna í u.þ.b. 2 cm ræmur, snúið upp á hverja ræmu og rúllið svo upp. Hér þarf alls ekki að hafa áhyggjur af að gera hlutina of fullkomna, þessir snúðar eru fallegir sama hversu vel snúningurinn heppnast.
  10. Raðið á smjörpappírsklædda ofnplötu. Dreifið perlusykri yfir snúðana og bakið í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðnir gullnir á lit.

.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka