Sólskinskaka með karamellukremi

Sólskinskökuna er sáraeinfalt og þægilegt að baka. Hreint sælgæti að …
Sólskinskökuna er sáraeinfalt og þægilegt að baka. Hreint sælgæti að njóta með karamellukremi sem enginn stenst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fastur liður á matarvefnum á laugardagsmorgnum eru Húsó-uppskriftirnar sem koma úr hinu leyndardómsfulla eldhúsi í Hússtjórnarskólanum við Sólvallagötu. Skólameistarinn Marta María Arnarsdóttir sviptir hér hulunni af uppskrift að Sólskinskökunni sem er ein einfaldasta kaka sem hægt er að baka.

Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans heldur áfram að birta uppskriftir …
Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans heldur áfram að birta uppskriftir úr eldhúsinu leyndardómsfulla á Sólvallagötunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þessi einfalda formkaka er tilvalin til að eiga með helgarkaffinu. Hún er gerð úr hráefnum sem iðulega eru til á heimilinu og því auðvelt að skella í hana með stuttum fyrirvara, án þess að þurfa að fara í aukabúðarferð. Hún þarf sinn tíma í ofninum en að öðru leyti er hún fljótleg og þægileg í undirbúningi og Marta María lofar því að hún muni renna ljúflega niður.

Sólskinskaka

  • 120 g smjör
  • 120 g sykur
  • 2 egg
  • 125 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft

Aðferð:

  1. Hrærið saman smjör og sykur þar til það er orðið létt og ljóst.
  2. Hrærið síðan eggjunum saman við einu í einu.
  3. Sigtið þurrefnin út í og hrærið í stutta stund þar til öllu hefur verið blandað saman.
  4. Bakið við 175°C á undir og yfir hita í 45-60 mínútur, fer eftir formi.

Karamellukrem

  • 2 dl rjómi
  • 120 g sykur
  • 2 msk. síróp
  • 30 g smjör
  • 1 tsk. vanilla eða vanilludropar

Aðferð:

  1. Setjið rjóma, sykur og síróp í pott og sjóðið rólega saman þar til kemur rönd eftir sleifina á botninum.
  2. Setjið þá smjörið og vanilluna út í og sjóðið stuttlega.
  3. Hjúpið kökuna með ylvolgu kreminu þegar hún er orðin köld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert