Dýrindis bleik vanillukaka með rjómaostakremi

Vanillukakan hennar Berglindar er falleg og sykurfrauðið settur skemmtilegan svip …
Vanillukakan hennar Berglindar er falleg og sykurfrauðið settur skemmtilegan svip á kökuna. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Bleiki dagurinn er í dag og margir brjóta upp á hversdagsleikann og bjóða upp á bleikar sælkerakræsingar sem gleðja bæði hjarta og sál á þessum degi. Berglind Hreiðarsdóttir lífsstíls- og matarbloggari með meiru ætlar að taka þátt í bleika deginum og gera dýrindis vanilluköku með rjómaostakremi fyrir sig og sína. Tilefni bleika dagsins er ærið en það er að allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni fyrir stuðningi landsmanna og samstöðu.

Berglind Hreiðarsdóttir matarbloggari með meiru er þekkt fyrir að fara …
Berglind Hreiðarsdóttir matarbloggari með meiru er þekkt fyrir að fara alla leið þegar þema er í kræsingum er annars vegar. Hún hefur haldið ófá bleik boð gegnum tíðina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Berglind hefur ávallt haldið upp á bleika daginn með því að bjóða í bleikar kræsingar með öllu tilheyrandi enda þekkt fyrir að fara alla leið þegar ákveðið þema er annars vegar. „Að þessu sinni ætla ég að bjóða upp á dýrindis bleika vanilluköku með rjómaostakremi og mun skreyta hana með sykurfrauði sem gerir kökuna meira aðlaðandi,“ segir Berglind og hlær.

Vanillu kaka með rjómaostakremi

Fyrir 10-12

Vanillu kökubotnar

  • 340 g hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 230 g smjör við stofuhita
  • 350 g sykur
  • 60 ml ljós matarolía
  • 3 egg + 3 eggjahvítur
  • 60 g sýrður rjómi
  • 300 ml súrmjólk
  • 2 tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 170°C og setjið smjörpappír í botninn á 4 x 15 cm kökuformum, spreyið þau síðan vel að innan með matarolíuspreyi.
  2. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti og geymið þar til síðar.
  3. Þeytið saman smjör, sykur og matarolíu þar til blandan verður létt og ljós, skafið aðeins niður á milli.
  4. Bætið síðan þurrefnunum saman við í nokkrum skömmtum til móts við sýrðan rjóma, súrmjólk og vanilludropa.
  5. Hrærið vel saman og skiptið síðan jafnt niður í kökuformin og bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu en ekki blautu deigi. Kælið botnana á grind, skerið ofan af þeim til að jafna þá og útbúið næst kremið.

Rjómaostakrem og samsetning

  • 240 g smjör við stofuhita
  • 160 g Philadelphia rjómaostur við stofuhita
  • ½ tsk. salt
  • ½ tsk. sítrónudropar
  • 2 msk. Cream of tartar
  • 1000 g flórsykur
  • Bleikur matarlitur
  • Bleikt sykurfrauð 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þeyta saman smjör, rjómaost, salt og sítrónudropa þar til blandan verður létt og ljós.
  2. Blandið Cream of tartar saman við flórsykurinn og setjið saman við í nokkrum skömmtum, þeytið vel og skafið niður á milli.
  3. Bætið matarlit saman við og þeytið áfram þar til slétt og létt krem hefur myndast.
  4. Smyrjið um 1 cm þykku lagi á milli botnanna og hjúpið fyrst með þunnu lagi af kremi, kælið kökuna síðan í um 15 mínútur.
  5. Hrærið aðeins upp í kreminu áður en þið setjið næsta lag yfir en það má vera um ½ cm á þykkt og sléttið úr þessari umferð eins og unnt er.
  6. Setjið restina af kreminu í sprautupoka og notið þéttan stjörnustút til þess að sprauta „öldumynstur“ bæði ofan á kökuna og neðst við diskinn.
  7. Skreytið síðan með því að setja bleikt sykurfrauð á toppinn.
  8. Berið fallega fram og njótið.
Bleiki liturinn klæðir vanillukökuna vel.
Bleiki liturinn klæðir vanillukökuna vel. Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert