Glaðbeittar hrekkjavöku bollakökur Guðrúnar

Guðrún Erla Guðjónsdóttir á heiðurinn af þessum dýrindis hrekkjavöku bollakökum.
Guðrún Erla Guðjónsdóttir á heiðurinn af þessum dýrindis hrekkjavöku bollakökum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þessi gómsætu og skemmtilegu hrekkjavöku bollakökur koma úr smiðju Guðrúnar Erlu Guðjóns­dóttur, bak­ara og nema í konditor hjá Mosfellsbakarí.  Guðrún ætlar að halda upp á hrekkjavökuna í ár og býður meðal annars upp á þessar dýrindis hrekkjavöku bollakökur sem hún skreytir á svo skemmtilegan hátt. Guðrún er þekkt fyrir að bjóða upp á ljúffengar kökur sem erfitt er að standast enda er hún sigurvegari keppn­innar um Köku árs­ins í ár auk þess sem hún hlaut annað sætið í fyrra.

Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari og nemi í konditori er einstaklega …
Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari og nemi í konditori er einstaklega hæfileikarík í sínu fagi og vann meðal annars keppnina um Köku ársins í ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bollakökurnar hennar eru skreyttar með gómsætu appelsínugulu smjörkremi í anda hrekkjavökunnar sem brosa gleitt framan í þann sem þær tekur.

Glaðbeittar og fallegar hrekkjavöku bollakökurnar hennar Guðrúnar í anda hrekkjavökunnar …
Glaðbeittar og fallegar hrekkjavöku bollakökurnar hennar Guðrúnar í anda hrekkjavökunnar sveipaðar fallegum haustlitum mbl.is/Kristinn Magnússon
Ómótstæðilega freistandi að grípa þessar og borða.
Ómótstæðilega freistandi að grípa þessar og borða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrekkjavöku bollakökur

U.þ.b. 16 stk.

Bollakökur

  • 200 g hveiti
  • ½ tsk. salt
  • 1 tsk. matarsódi
  • 200 g sykur
  • 200 g mjúkt smjör
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 4 egg
  • 100 g köku “sprinkles

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C.
  2. Vinnið sykur og smjör saman með spaða í matreiðsluvél.
  3. Sigtið öll þurrefnin (nema sprinkles) saman í skál.
  4. Þeytið sykur og smjör vel saman og þegar blandan er orðin hvít og falleg, setjið þá eitt og eitt egg út í, og hrærið varlega.
  5. Þegar eitt egg er eftir, setjið þá helminginn af þurrefnum út í, og síðan setjið þið síðasta eggið út í.
  6. Síðan bætið þið restin af þurrefnunum út í og blandið þar allt er komið saman.
  7. Að lokum setjið þið sprinkles út í blönduna og blandið bara rétt svo saman.
  8. Setjið blönduna í bollakökuform og bakið við 180°hita í 15 til 20 mínútur.
  9. Gott er að nota lítið prik til að stinga í bollakökurnar til að sjá hvort þær séu tilbúnar. 

Smjörkrem

  • 120 g smjörlíki
  • 120 g smjör
  • 330 g flórsykur
  • 6 g vanilludropar
  • 4-5 dropar appelsínugulur matarlitur 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þeyta saman smjör og smjörlíki þar til blandan er orðin mjúk.
  2. Bætið síðan flórsykrinum út í og blandið vel saman á miðlungs hraða.
  3. Setjið síðan vanilludropana út í, og þeytið smjörkremið á hæsta hraða í 5 til 10 mínútur eða þangað til það er orðið létt og ljóst.
  4. Að lokum setjið þið matarlitinn út í eftir smekk.

Skreyting

  • Dökkt súkkulaði eftir smekk
  • Smjörpappír
  • Appelsínugult smjörkrem 

Aðferð:

  1. Takið eina bollaköku og sprautið appelsínugula smjörkreminu með stjörnutjúllu.
  2. Takið bollakökuna og snúið henni á haus og ýtið henni örlítið niður á smjörpappírinn, og frystið síðan í smá stund.
  3. Þegar bollakakan er nógu frosin þannig að hægt er að lyfta henni upp frá smjörpappírnum, getið þið byrjað að skreyta.
  4. Bræðið dökkt súkkulaði og sprautið „jack-o’-lantern“ andlit á bollakökuna.
  5. Bíðið smá eftir að smjörkremið þiðni og berið síðan fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka