Ljúffeng kalkúnabringa með stökkri villisveppaskel og villisveppasósu

Ljúffeng kalkúnabringa borin fram með stökkri sveppaskal og villisveppasósu.
Ljúffeng kalkúnabringa borin fram með stökkri sveppaskal og villisveppasósu. Ljósmynd/Gerum daginn girnilegan

Margir nýta sér þakkargjörðina sem fram undan er næstkomandi fimmtudag til að gera sér glaðan dag og matreiða kalkúnn þó þakkargjörðin sé amerískur siður. Þessa dagana er nóg til af kalkún í matvöruverslunum, bæði heilum kalkúnn og bringum sem hægt er að gera úr dýrindis hátíðarmáltíð. Hér erum við með uppskrift að ljúffengri kalkúnabringu með stökkri villisveppaskel og villisveppasósu úr smiðju Vigdísar sem birtist á uppskriftasíðunni Gerum daginn girnilegan og hægt er að sjá myndbandið hér. Það er vel hægt að mæla þessari samsetningu og kalkúnabringan bráðnar í munni.

Kalkúnabringa

Fyrir tvo

  • 1 stk. kalkúnabringa
  • 3 tsk. villibráðakraftur frá OSCAR
  • Ólífuolía eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 250 g smjör, skorið í tenginga
  • 1 stk. skalotlaukur
  • 1 stk. sítróna
  • 1 stk. mandarína
  • Þurrkaðar kryddjurtir eins og timian og rósmarín

Aðferð:

  1. Veltið kalkúnabringu upp úr ólífuolíu, salti og pipar.
  2. Setjið vatn 500 ml af vatni í eldfast mót ásamt 3 tsk. af villibráðakraft og hrærið saman.
  3. Setjið kalkúnabringuna í eldfasta mótið ásamt lauk, sítrusávöxtum og kryddjurtum.
  4. Kryddið vel með kalkúnakryddi eða öðru kryddi.
  5. Setjið smjörteninga yfir í lokin.
  6. Eldið við vægan hita eða 100°C í um 1½ – 2 klukkustundir þar til kalkúnabringan nær 60° gráðum í kjarnhita, þá er hún tekin út og sett í nýtt eldfast mót eða safinn tekinn af og villisveppaskel sett yfir. Gott er að geyma soðið fyrir sósuna.
  7. Kalkúnabringan fer þá aftur í ofninn við 180° í um 20-30 mínútur þar til hún hefur náð 68°.
  8. Þá er hún tekin út og látin standa þar til kjarnhitinn hefur náð 72°.

Villisveppaskel

  • 300 g smjör
  • 1 tsk. villibráðakraftur frá OSCAR
  • 80 g þurrkaðir villisveppir muldir
  • 1 stk. sítróna, safinn
  • 8 dl brauðrasp
  • Salt og pipar eftir smekk 

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið og myljið villisveppi í blandara, blandið öllu saman í matvinnsluvél eða hrærivél.
  2. Setjið á smjörpappír og annan smjörpappír yfir og fletjið út.
  3. Gott er að kæla vel og skera í rétta stærð og leggja á kalkúnabringuna áður en hún fer í ofninn í seinna skiptið.

Villisveppasósa

  • 500 g blandaðir villisveppir
  • 3 msk. smjör
  • 1 stk. skalotlaukur
  • 3 stk. hvítlauksrif
  • 3 msk. hlynsíróp frá Rapunzel
  • 2 tsk. villibráðakraftur frá OSCAR magn eftir smekk
  • 200 ml rauðvín
  • 500 ml rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 2 dl kalkúnasoð
  • Ferskt rósmarín og timian eftir smekk

Aðferð:

  1. Steikið sveppi upp úr smjöri, bætið lauk út á pönnuna ásamt hvítlauk.
  2. Þegar sveppirnir eru orðnir vel brúnir er gott að bæta við sírópi.
  3. Hellið rauðvíni yfir og sjóðið niður, bætið krafti og rjóma út í og látið malla.
  4. Gott er að hella soðinu af kalkúninum út í sósuna og láta malla.
  5. Smakkið til með krafti, salti og pipar.


 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka