Retró nautalund, laxapaté og kavíarpæ um hátíðirnar

mbl.is/Eyþór Árnason

Hanna Thor­d­ar­son er ein­stak­lega list­ræn og mörg­um hæfi­leik­um gædd. Hún er mat­gæðing­ur af guðs náð og kræs­ing­arn­ar sem hún galdr­ar fram njóta ávallt mik­ill­ar hylli þeirra sem fá að njóta.

Ég tók U-beygju og ver í dag mest­um tíma í Galle­rí Hóls­hrauni þar sem vinnu­stof­an mín og til­rauna­held­húsið eru til húsa. Ef ég er ekki að gleyma mér í mat­ar­gerð þá er ég ým­ist að mála mynd­ir eða að vinna við kera­mík. Mér finnst frá­bært að geta blandað þessu öllu sam­an og tengt til dæm­is sam­an leir­inn og mat­ar­gerðina með því að búa til nytja­hluti eins og mat­ar- og bakst­ur­spott­ana mína,“ seg­ir Hanna.

Hanna Thordarson tengir saman listina og matargerðina á einstakan hátt …
Hanna Thor­d­ar­son teng­ir sam­an list­ina og mat­ar­gerðina á ein­stak­an hátt og jólakræs­ing­arn­ar henn­ar eru hrein nostal­g­ía og eiga sér all­ar sögu. mbl.is/​Eyþór Árna­son

Eng­in jól án ris à la mande à la mamma

Hanna er mik­il jóla­stelpa og seg­ist ávallt hafa verið það. Þegar hátíðirn­ar eru fram und­an bíður hún ávallt spennt og byrj­ar snemma að und­ir­búa gleðina. Hátíðar­kræs­ing­ar henn­ar eru spenn­andi og það er gam­an að því hve Hanna hef­ur mikla ánægju af því að halda í hefðir fjöl­skyld­unn­ar sem tengj­ast mat­ar­gerð.

„Mér finnst mik­ill sjarmi yfir hefðum en um leið finnst mér líka gott að breyta út af van­an­um öðru hvoru. Ætli mesta íhalds­sem­in hjá mér og mín­um sé ekki með mat­inn á aðfanga­dag, þar má litlu breyta.

Á aðfanga­dag er alltaf grillaður hum­ar með hvít­lauk í for­rétt, ham­borg­ar­hrygg­ur í aðal­rétt með heima­gerðu rauðkáli og í eft­ir­rétt er upp­á­haldið mitt, ris à la mande. Upp­skrift­in kem­ur frá mömmu en hún fylgdi henni heim frá Svíþjóð forðum daga. Það eru ein­fald­lega ekki jól nema fá ris à la mande à la mamma en þar leyn­ist mandl­an sem er ómiss­andi hluti af jóla­borðhald­inu. Um ára­mót má meira breyta til og er aldrei sami mat­seðill­inn á milli ára.“

Uppskriftin að laxapatéinu kemur frá Arnarhóli og er þaðundursamlega ljúffengt. …
Upp­skrift­in að laxapaté­inu kem­ur frá Arn­ar­hóli og er þaðund­ur­sam­lega ljúf­fengt. Patéið er borið fram með graslaukssósu, sem gef­ur gott bragð. mbl.is/​Eyþór Árna­son

Hanna deil­ir hér með les­end­um nokkr­um af sín­um upp­á­halds­upp­skrift­um sem hún seg­ir vera í retróstíl. Þetta er hið fræga laxapaté sem á sér sögu, kavíarpæ sem minn­ir aðeins á kræs­ing­ar sem í boði voru í sjón­varps­serí­unni Ver­búðinni og síðan er þar dýr­ind­is hátíðar­kvöld­verður sem á eft­ir að slá í gegn; retró nauta­lund.

„Þegar ég var um tví­tugt vann ég í upp­vask­inu á Arn­ar­hóli sem þótti mjög fínn staður í þá daga. Þar voru aðal­rétt­irn­ir born­ir fram með loki sem þjón­arn­ir tóku af eft­ir að rétt­ur­inn var bor­inn fram. Einn af rétt­un­um þar var laxapaté og var ég svo hepp­in að fá upp­skrift­ina. Mamma bjó þetta oft til og hafði í veisl­um. Mér fannst þetta alltaf svo gott og finnst það ennþá. Um ára­mót­in er ein hefð og það er kavíarpæið. Upp­skrift­in kem­ur frá mömmu og hef­ur verið hluti af henn­ar ára­móta­hefðum síðastliðin 40 ár. Kavíarpæið hljóm­ar kannski ekki vel en trúið mér, það er æði og ekk­ert betra en að gæða sér á því rétt eft­ir að klukk­an hef­ur slegið tólf og glæ­nýtt ár er gengið í garð,“ seg­ir Hanna og er þegar orðin spennt að fá að njóta þess um ára­mót­in.

Kavíarpæið er jólalegt og minnir á rétti sjöunda áratugarins.
Kavíarpæið er jóla­legt og minn­ir á rétti sjö­unda ára­tug­ar­ins. mbl.is/​Eyþór Árna­son

„Aðal­rétt­ur­inn er smá retró en áður fyrr þótti flott að bjóða upp á nauta­lund með bakaðri kart­öflu, steiktu græn­meti og pip­arsósu. Steik­ing­araðferðina á kjöt­inu er þó aðeins búið að nú­tíma­væða en það er hæg­eldað í matarpott­un­um mín­um. Það er af­skap­lega auðveld og þægi­leg aðferð til að halda kjöt­inu safa­ríku og um leið er lít­il hætta á að ofelda það.“

Hanna mæl­ir með að gera laxapatéið dag­inn áður en það á að bera það fram, þá er auðveld­ara að skera það niður í fal­leg­ar sneiðar. Einnig minn­ir Hanna á að hluta af kavíarpæ­inu þarf að út­búa dag­inn áður.

Retró nautalund borin fram með púrtvínssósu bakaðri kartöflu, gulrótarstrimlum og …
Retró nauta­lund bor­in fram með púrt­vínssósu bakaðri kart­öflu, gul­rót­ar­striml­um og rauðkáli er hátíðarmat­ur. mbl.is/​Eyþór Árna­son

Retró nautalund, laxapaté og kavíarpæ um hátíðirnar

Vista Prenta

Retró nauta­lund

Kjöt

  • 800-1.000 g nauta­lund
  • Svart­ur pip­ar, mul­inn í mortéli, fyr­ir þá sem vilja setja mul­inn pip­ar á hliðarn­ar
  • Stillið ofn­inn á 65°C (blást­ur).

Aðferð:

  1. Snyrtið kjötið aðeins, skerið sin­ar frá. Skerið lund­ina í bita, gott að miða við að hver biti sé 120-160 g.
  2. Lokið kjöt­bit­un­um á báðum hliðum, það má gera á heitri pönnu (ým­ist þurri pönnu eða með ör­litlu af olíu) eða á grilli. Mik­il­vægt í báðum til­fell­um að hita grillið eða pönn­una mjög vel.
  3. Setjið pip­ar á hliðarn­ar, fyr­ir þá sem vilja. Gott er að setja mul­inn pip­ar á lít­inn disk og nudda hliðunum ofan í.
  4. Leggið kjöt­bit­ana í Hönnupott eða sam­bæri­leg­an pott, gott að pipra aðeins ef ekki var piprað á hliðarn­ar.
  5. Stingið kjöt­hita­mæli í miðjuna á ein­um af kjöt­bit­un­um.
  6. Setjið lokið á og pott­inn inn í ofn.
  7. Þegar kjarn­hit­inn er kom­inn í 52°C lækkið þá hit­ann á ofn­in­um í 55°C og þar get­ur kjötið verið nán­ast enda­laust án þess að steikj­ast of mikið. Kjarn­hit­inn má al­veg fara upp í 55°C.
  8. Gera má ráð fyr­ir að eld­un­ar­tím­inn verði tæp­ar tvær klukku­stund­ir en má vera lengri.
  9. Takið kjötið úr pott­in­um og leggið á bretti.
  10. Þar sem kjötið hef­ur eld­ast í ró­leg­heit­um er ekki þörf á að láta það jafna sig áður en það er borið fram.
  11. Gott að strá ör­litlu af salt­flög­um yfir.

Pipar­púrt­vínssósa

  • 1¾ dl púrt­vín
  • 3½ dl nautakrafts­soð (nautakraft­ur og vatn)
  • 2½ dl rjómi
  • 3-4 tsk. svart­ur pip­ar, mul­inn í mortéli
  • ½ tsk. sojasósa
  • 1-2 msk. sósu­jafn­ari (má sleppa)

Aðferð:

  1. Kjöt­krafti bætt við á pönn­una sem kjötið var steikt á og látið sjóða þar til magnið hef­ur u.þ.b. helm­ing­ast.
  2. Púrt­vín sett á pönn­una (eða í pott ásamt kjötsoðinu af pönn­unni) og látið sjóða í nokkr­ar mín­út­ur þar til vín­and­inn er far­inn. Ef upp­guf­un­in hef­ur minnkað magnið um helm­ing ætti að vera óþarfi að nota sósu­jafn­ara.
  3. Hit­inn lækkaður og rjóma bætt við ásamt pip­ar­korn­um.
  4. Sojasósu bætt við og smakkað.
  5. Upp­lagt að hella soðinu af kjöt­inu út í sós­una. Ath. ef sós­an er of þunn má bæta við sósu­jafn­ara og láta suðuna koma upp.

Gul­rót­ar­striml­ar

  • 10 gul­ræt­ur
  • 50-60 g smjör
  • 1 tsk. rót­argræn­metiskrydd frá Potta­göldr­um
  • ½ tsk. hvít­laukssalt
  • 1-2 msk. hun­ang
  • ½ tsk. timí­an, þurrkað
  • salt og pip­ar eft­ir smekk
Aðferð:
  1. Ofn­inn hitaður í 175°C (blást­ur).
  2. Smjör brætt í potti á lág­um hita.
  3. Hun­angi, krydd­inu Best á allt, hvít­laukssalti og pip­ar blandað sam­an við smjörið.
  4. Gul­ræt­ur sett­ar á bök­un­ar­papp­ír á ofn­plötu (einnig má nota leirpott … bæði lokið og botn­inn) og gljá­an­um hellt yfir.
  5. Bakað í ofn­in­um í 35-40 mín­út­ur.
  6. Ný­möluðum pip­ar stráð yfir og skreytt með ferskri stein­selju eða timí­an.

Steikt rauðkál

  • Rauðkál, skorið í örþunn­ar sneiðar
  • smjör eft­ir smekk

Aðferð:

  1. Setjið smjör á pönnu og hitið.
  2. Snögg­steikið rauðkáls­striml­ana.

Annað meðlæti

  • Bökuð kart­afla og smjör

Aðferð:

  1. Þar sem flest­ir eru bara með einn ofn í eld­hús­inu get­ur verið smá púsl með eld­un­ina. Þá er upp­lagt að for­steikja gul­ræt­urn­ar áður en kjötið er sett inn. Bökuðu kart­öfl­urn­ar geta verið með pott­in­um í ofn­in­um en þá þarf að baka þær eða for­sjóða á und­an.

Hug­mynd að fram­setn­ingu

Steikta rauðkálið sett fyrst á disk­inn, því næst gul­rót­ar­striml­ar og að lok­um er kjöt­biti lagður ofan á.
Bökuð kart­afla sett til hliðar og sósu hellt yfir kjötið eða setjið bara sós­una fyrst á disk­inn, það er al­veg smá retró.

Laxapaté

Fyr­ir 10-12

  • 800 g fersk­ur lax
  • 200 g reykt­ur lax, skor­inn í fing­ur­bita
  • Þunnskorn­ar sneiðar af reykt­um laxi, nógu marg­ar til að raða á botn og á hliðar forms­ins sem notað er, hægt er að kaupa þunnskorn­ar sneiðar, u.þ.b. 2-3 pakkn­ing­ar
  • 2 msk. ólífu­olía
  • 2 eggj­ar­auður
  • safi úr einni sítr­ónu
  • 125 g rjóma­ost­ur, mjúk­ur
  • 100 g smjör, mjúkt
  • ½ dl fersk­ur graslauk­ur, saxaður
  • ½ dl ferskt dill, saxað eða ½ msk. þurrkað dill
  • salt og hvít­ur pip­ar eft­ir smekk
  • 3 blöð mat­ar­lím
  • Ferskt dill til skreyt­ing­ar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða lax­inn, vatn sett í pott, ekki setja of mikið, nóg að vatnið nái rétt yfir fisk­inn.
  2. Látið suðuna koma upp, leggið fisk­inn í vatnið og sjóðið í 10-12 mín­út­ur, var­ist að láta bullsjóða, þá verður fisk­ur­inn þurr.
  3. Takið fisk­inn úr vatn­inu og haldið eft­ir laxa­soðinu og sjóðið það vel niður, gæti tekið 15-20 mín­út­ur á góðum hita en er háð vatns­magn­inu. Soðið á að vera u.þ.b. 4-5 dl. Þegar það er til­búið er laxa­soðið sigtað.
  4. Hreinsið lax­inn og setjið í mat­vinnslu­vél, passið samt að mauka ekki of mikið.
  5. Setjið mat­ar­lím í kalt vatn í 5 mín­út­ur.
  6. Setjið ólífu­olíu, eggj­ar­auðu, sítr­ónusafa, rjóma­ost, smjör, graslauk, dill, salt og pip­ar út í laxamaukið og hrærið sam­an og smakkið til.
  7. Takið mat­ar­límið upp úr vatn­inu og leysið upp í laxa­soðinu, bætið við hrær­una.
  8. Setjið plast­filmu í mótið, gott að nota ílangt köku­form eða brauðform.
  9. Raðið skorn­um laxasneiðunum í botn og á hliðar.
  10. Hellið helm­ingn­um af mauk­inu í formið.
  11. Raðið fing­urþykk­um lengj­um af reykt­um laxi í mótið.
  12. Hellið mauk­inu yfir og pakkið inn með laxasneiðunum. At­hugið, stund­um duga ekki laxasneiðarn­ar og hef ég þá hakkað af­gang­inn af reykta lax­in­um og stráð yfir.
  13. Lokið með plast­filmu og látið standa í kæli yfir nótt.

Sósa með laxapaté

  • 1½-2 box af sýrðum rjóma eða 270-360 g grísk jóg­úrt
  • graslauk­ur, saxaður

Aðferð:

  1. Hrærið sam­an sýrðan rjóma og graslauk og setjið á disk með hverri sneið.

Laxapaté borið fram

Takið plast­filmuna af og skerið í sneiðar með beitt­um hníf. Gott að vera með heit­an hníf, skola hann með heitu vatni og þurrka reglu­lega af hon­um.

Hægt að bera fram á fati eða leggja eina og eina sneið á for­rétta­diska og bera fram með sós­unni.

Skreytið með fersku dilli.

Prenta

Kavíarpæ

For­vinna

Hluti af rétt­in­um er gerður dag­inn áður.

Kavíarpæ

Fyr­ir 7-8

  • 6 egg
  • 3 msk. maj­ónes
  • 1 lauk­ur, saxaður smátt
  • 1 dós sýrður rjómi eða 180 g grísk jóg­úrt
  • 200 g rjóma­ost­ur, gott að hafa hann við stofu­hita
  • 1½-2 krukk­ur svört eða rauð kaví­ar­hrogn
  • Ritz-kex

Aðferð:

  1. Setjið egg­in í kalt vatn og látið suðuna koma upp. Sjóðið í u.þ.b. 9 mín­út­ur, kælið eft­ir suðu.
  2. Skerið egg­in niður í litla bita með eggja­skera og setjið í skál ásamt maj­ónes­inu og hrærið sam­an.
  3. Smyrjið eggja­blönd­unni á disk.
  4. Stráið laukn­um yfir.
  5. Hrærið sam­an sýrða rjóm­an­um og rjóma­ost­in­um og smyrjið blönd­unni yfir lauk­inn. Gott að nota hníf til að smyrja.
  6. Setjið plast­filmu yfir, ekki setja hana yfir all­an disk­inn held­ur aðeins yfir pæið. Það get­ur mynd­ast vökvi ef film­an er sett yfir all­an disk­inn.
  7. Látið standa í kæli yfir nótt.
  8. Smyrjið kaví­ar yfir rjóma­osts­blönd­una, raðið Ritz-kexi í kring­um kavíarpæið
  9. Pæið geym­ist í kæli, jafn­vel í nokkra daga.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert