Bollubæklingur með ljúffengum uppskriftum

Eva Laufey Kjaran markaðs- og upplifunarstjóri segir Íslendinga vera svo …
Eva Laufey Kjaran markaðs- og upplifunarstjóri segir Íslendinga vera svo sólgna í bollur að það sé ekki lengur bara bolludagur heldur bolluvika. Hér er nýjasti Bollubæklingur Hagkaups kynntur til leiks. Samsett mynd

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá lesendum matarvefs mbl.is að það styttist í einn af betri dögum ársins, sjálfan bolludaginn. Á matarvefnum hafa birst fjölbreyttar og girnilegar uppskriftir að bollum og við eigum von á að fá fleiri uppskriftir til skoða og velja úr. Nú hefur til að mynda Eva Laufey Kjaran ástríðubakari með meiru og markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups ásamt teyminu hjá Hagkaup tekið saman nokkrar uppskriftir að ómótstæðilegum bollum. 

Veglegur bollubæklingur

„Eins og undanfarin ár hefur Hagkaup gefið út veglegan bollubækling þar sem tökum saman ómótstæðilegar uppskriftir að bollum. Uppskriftirnar eru fjölbreyttar, þetta eru hátt í tuttugu uppskriftir og ég þori að fullyrða að allir ættu að finna sér uppskrift við sitt hæfi. Vatnsdeigsbollur fylltar með allskyns ljúffengum fyllingum, gerbollur, ketóbollur og veganbollur svo dæmi sé tekið. Uppskriftirnar eru gamlar og nýjar í bland, við höfum unnið með svo frábæru og hæfileikaríku fólki á sínu sviði undanfarin ár sem hafa útbúið uppskriftir fyrir okkur sem slegið hafa í gegn og það er aldrei of oft deilt góðum uppskriftum – svo mikið er víst,“ segir Eva Laufey.

Bolludagurinn orðinn bolluvika 

„Ég er líka mjög ánægð með þá þróun að við ætlum að lengja aðeins í bolludaginn og það má segja að þetta sé orðin bolluvika þar sem Íslendingar eru spenntir að hefja baksturinn og byrja jafnvel vikuna fyrr. Við erum einnig byrjuð að selja tilbúnar bollur og gekk salan vonum framar um síðustu helgi og alveg ljóst að landinn er klár í bollur og með því. Úrvalið í verslunum okkar er ansi gott fyrir þessa bolluhátíð en við seljum að sjálfsögðu tilbúnar fylltar bollur og svo eru 17 Sortir með sínar gullfallegu og bragðgóðu bollur. Það má því segja að við séum heldur betur klár í þessa helgi og getum ekki beðið eftir því að taka á móti okkar viðskiptavinum, hvort sem það er að kaupa inn allt fyrir baksturinn eða að kaupa tilbúnar bollur. Hver og einn gerir sitt og um að gera að njóta þess að vera með rjóma út á kinn – nú er tíminn,“ segir Eva Laufey að lokum og gaf matarvefnum leyfi til að birta nokkrar uppskriftir úr bæklingnum sem eiga eftir að gleðja alla bolluunnendur. Hér má lesa bæklinginn.

Bollurnar eru alls konar og fjölbreytnin vart verið meiri.
Bollurnar eru alls konar og fjölbreytnin vart verið meiri. Ljósmynd/Eva Laufey

Bolluuppskriftir

Vatnsdeigsbolluhringur með æðislegri karamellufyllingu.
Vatnsdeigsbolluhringur með æðislegri karamellufyllingu. Ljósmynd/Blik Stúdíó
Nutella bollur með ljúffengri rjómafyllingu.
Nutella bollur með ljúffengri rjómafyllingu. Ljósmynd/Blik Stúdíó



Vatnsdeigshringur með æðislegri karamellufyllingu

  • 1 hringur
  • 100 g smjör
  • 2 dl vatn
  • 110 g hveiti
  • 3 stór egg

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C (blástur).
  2. Setjið vatn og smjör í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið í tvær mínútur.
  3. Setjið hveitið út í og blandið vel saman þar til deigið er orðið mjúkt.
  4. Leyfið deiginu að kólna í nokkrar mínútur. Þið megið færa deigið yfir í hrærivélarskál á þessu stigi eða hræra áfram með höndunum.
  5. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þeytið vel á milli.
  6. Setjið deigið í spraut­poka og sprautið hring á pappírsklædda ofnplötu.
  7. Bakið við 200°C í 25 mínúnur. Það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 til 20 mínúturnar af bökunartímanum svo hringurinn falli ekki.
  8. Kælið mjög vel áður en þið fyllið með gómsætri fyllingu.

Karamellufylling

  • 500 ml rjómi
  • 2 msk karamellusósa að eigin vali
  • 100 g karamellukurl

Aðferð:

  1. Setjið rjóma og karamellusósu saman í skál og þeytið þar til rjóminn er stífþeyttur.
  2. Bætið karamellukurli saman við með sleikju í lokin.
  3. Skerið hringinn í tvennt, smyrjið sultu að eigin vali í botninn á hringnum og fyllið síðan með ljúffengri rjómafyllingu.

Glassúr

  • 4 dl flórsykur
  • 3 msk. söltuð karamellusósa að eigin vali
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 – 2 msk. mjólk.
  • Fersk ber til skrauts, til dæmis rifsber, hindber og jarðarber.

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál og hrærið saman, bætið mjólkinni saman við i nokkrum skömmtum. Þið viljið ekki að glassúrinn sé of þunnur og þess vegna gott að byrja að setja minna en meira af mjólkinni.
  2. Smyrjið lokið á hringnum með glassúr og skreytið með smátt skornum berjum.

Nutella bollur með ljúffengri rjómafyllingu.

Vatnsdeigsbollur

10-12 stk.

  • 100 g smjör
  • 2 dl vatn
  • 110 g hveiti
  • 3 stór egg

Aðferð:

  1. Hitið ofn­inn í 200°C (blástur).
  2. Setjið vatn og smjör í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið í tvær mínútur.
  3. Setjið hveitið út í og blandið vel saman þar til deigið er orðið mjúkt.
  4. Leyfið deiginu að kólna í nokkrar mínútur. Þið megið færa deigið yfir í hrærivélarskál á þessu stigi eða hræra áfram með höndunum.
  5. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þeytið vel á milli.
  6. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið bollunum á pappírsklædda bökun­ar­plötu en það má auðvitað nota skeiðar til þess að forma bollurnar.
  7. Bakið við 200°C í 25 mínútur.Það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar af bökunartímanum svo að bollurnar falli ekki.
  8. Kælið mjög vel áður en þær eru fylltar með gómsætum fyllingum.
  9.  

Nutella fylling

  • 500 ml rjómi
  • 3 msk. nutella + meiri Nutella sem er smurt á hverja bollu, magn eftir smekk.
  • 1 msk. sykur

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í hrærivélaskál og þeytið þar til rjóminn er stífþeyttur.
  2. Setjið rjóma í sprautupoka, skerið bollurnar í tvennt, smyrjið bollurnar með Nutella og fyllið með ljúffengri rjómafyllingu. 

Glassúr

  • 4 dl flórsykur
  • 3 msk. kakó
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 3 – 4 msk. mjólk
  • Mulið Snickers til skrauts.

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál og hrærið saman, bætið mjólkinni saman við i nokkrum skömmtum. Þið viljið ekki að glassúrinn sé of þunnur og þess vegna gott að byrja að setja minna en meira af mjólkinni.
  2. Smyrjið lokið á bollunum með glassúr og sáldrið smátt söxuðu Snickers yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka