Langbesta kakósúpan sem amma lærði í Húsó

Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Húsó með ömmu sinni, Mörtu …
Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Húsó með ömmu sinni, Mörtu Maríu Jónasdóttur, en amma hennar lærði að gera kakósúpu sem sögð er sú langbesta í Húsó árið 1950. Samsett mynd

Hver man ekki eftir þessari nostalgíu kakósúpunni með tvíbökum? Nú er komið að næstu uppskrift úr Húsó-eld­hús­inu á mat­ar­vefn­um og það er einmitt kakósúpan fræga sem hef­ur gengið í marga ættliði. Líkt og með Húsó-pönnukökurnar þá lærði amma skóla­meist­ar­ans Mörtu Maríu Arn­ars­dótt­ur, þessa upp­skrift þegar hún gekk í Húsó

Kakósúpan er fullkomin sem eftirréttur til dæmis eftir fiskrétt. Það getur líka virkað vel sem smá verðlaun fyrir börn að klára fiskinn af disknum, flestum börnin finnst nefnilega kakósúpa agalega góð.

Amma lærði þessa uppskrift árið 1950

„Persónulega finnst mér hún betri aðeins í þykkari kantinum og hafa aðeins meira kakó en minna, þannig er hún svo ljúffeng. Þetta er kakósúpan sem amma lærði líka þegar hún gekk ú Húsó árið 1950 og súpan hennar hefur ekkert breyst. Ég fullyrði að þetta er langbesta kakósúpuuppskriftin þótt víða væri leitað,“ segir Marta María og brosir.

Uppskriftin er hugsuð fyrir fjóra en annars er reglan í þessu: 1 matskeið kakó og 2 matskeiðar sykur á mann. Þannig er auðvelt að margfalda eftir því hve margir eru í mat. Og það má alveg setja smá kúffullar matskeiðar af kakóinu, hún verður bara betri þannig að sögn Mörtu Maríu.

Kakósúpa með tvíbökum er algjör nostalgía að njóta.
Kakósúpa með tvíbökum er algjör nostalgía að njóta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kakósúpa

Fyrir 4

  • 4 msk. kakó
  • 8 msk. sykur
  • 1 l mjólk
  • Kartöflumjöl
  • Vatn

Aðferð:

  1. Setjið kakó og sykur í pott og hrærið saman í smá köldu vatni, annars hleypur súpan í kekki.
  2. Hellið um það bil einum lítra af mjólk út í og hitið að suðu.
  3. Hrærið kartöflumjöli saman við kalt vatn í sér skál.
  4. Hellið blöndunni síðan rólega saman við súpuna í mjórri bunu og hrærið í þangað til súpan er orðin passlega þykk.
  5. Gætið ykkar að fara varlega í þessu skrefi og engan brussugang, annars gæti súpan orðið of þykk eða kekkjótt.
  6. Það er smekksatriði hve þykka súpu fólk vill hafa þannig að þess vegna er engin mælieining á kartöflumjölinu.
  7. Borið fram með tvíbökum, mjólk eða rjóma.
  8. Verði ykkur að góðu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka