Glæsilegur páskadögurður Marentzu

Marentza Poulsen heldur mikið upp á páskana og á bernskuárum …
Marentza Poulsen heldur mikið upp á páskana og á bernskuárum hennar voru páskadagarnir heilagir og snerust um samverustundir með fjölskyldunni og að elda góðan mat mbl.is/Árni Sæberg

Marentza Poulsen, sem er þekkt fyrir að vera mikil smekkkona og smurbrauðsdrottning landsmanna, býður lesendum Morgunblaðsins upp á glæsilegan páskadögurð sem á svo sannarlega eftir að heilla matargestina upp úr skónum.

Marentza tekur ávallt höfðinglega á móti gestum sínum og hugsar fyrir hverju smáatriði í framsetningu og útliti.

„Að leggja fallega á borð, bera fram kræsingar og gleðja gestina mína með nærandi og gefandi stundum er ástríða mín,“ segir Marentza sem á og rekur meðal annar Klambra bistró á Kjarvalsstöðum þar sem gestir fá að njóta gestrisni hennar.

Marentza er mikil smekkkona og leggur ávallt mikið upp úr …
Marentza er mikil smekkkona og leggur ávallt mikið upp úr því að leggja fallega á borð og skreyta í takt við tilefnið. Páskaborðið hennar er fágað og fagurt líkt og kræsingarnar. mbl.is/Árni Sæberg

Eiga góða samverustund með fjölskyldunni

„Páskarnir eru sú hátíð sem ég held einna mest upp á. Trúarlegur tilgangur þeirra skiptir mig máli, ég er alin upp í Færeyjum þar sem páskarnir voru mjög heilagir og það hefur einhvern veginn fylgt mér. Það snýst um að gera sem minnst af hversdagslegum athöfnum, eiga góða samverustund með fjölskyldunni og elda góðan mat. Föstudaginn langa var til siðs að elda fisk þegar ég var lítil í Færeyjum, það voru líka bakaðar smákökur eins og fyrir jólin en það fer minna fyrir því í dag. Á páskadag eldum við til dæmis páskalambið eða góðan kjúklingarétt. Við höfum líka alltaf átt góða stund við morgunverðarborðið á páskadagsmorgun,“ segir Marentza á sinn fallega og einlæga hátt. Páskadögurðurinn nýtur ávallt mikilla vinsælda og eftir dögurðinn er gjarnan farið í að gæða sér á súkkulaðieggjum.

Fegurð á páskaborðinu hennar Marentzu.
Fegurð á páskaborðinu hennar Marentzu. mbl.is/Árni Sæberg

Aðspurð segir Marentza páskaegg ávallt leika ákveðið hlutverk á páskunum hjá sér og fjölskyldunni. „Áður fyrr máluðum við egg og gerðum alls konar skraut með börnunum. Það fer minna fyrir því núna og auðvitað breytast athafnirnar þegar börnin eldast. Það tilheyrir vissulega að fá páskaegg en hvaða tegund skipti engu máli og þau hafa aldrei verið stór,“ segir Marentza og bætir við að gæðastundin snúist um að njóta, ekki magnið.

Frumleg og falleg skreyting, egg fyllt með kryddjurtum og hvítar …
Frumleg og falleg skreyting, egg fyllt með kryddjurtum og hvítar tauservíettur mynda hreiður á skemmtilegan hátt. mbl.is/Árni Sæberg

Mesta spennan að fylgjast með eggjunum rúlla niður

Marentza á líka góðar æskuminningar frá sínum heimaslóðum á páskum. „Þegar ég var lítil var það til siðs að mála fullt af harðsoðnum eggjum, þar fékk listsköpunin að njóta sín. Það var farið út í náttúruna á páskadag eða annan í páskum. Þar hittust margar fjölskyldur og allir að rúlla eggjunum. Við fórum upp í hlíð með körfu fulla af eggjum og létum eggin rúlla niður brekkuna, mesta spennan var að fylgjast með hversu langt þau náðu niður án þess að brotna. Þetta var skemmtileg fjöldskyldusamvera,“ segir Marentza dreymin.

Marentza deilir hér með lesendum Morgunblaðsins uppskriftum fyrir glæsilegan páskadögurð sem lætur engan ósnortinn þar sem ljúffengir og páskalegir réttir fanga bæði auga og bragðlauka.

Focaccia-vaffla borin fram með reyktum laxi, hleyptu eggi og epla- …
Focaccia-vaffla borin fram með reyktum laxi, hleyptu eggi og epla- og sellerísalati sem á eftir að heilla matargestina upp úr skónum. Fallegur páskaréttur. mbl.is/Árni Sæberg
Maísvaffla með unaðslega góðu avókadó- og kjúklingasalati, skreytt með kryddjurtum …
Maísvaffla með unaðslega góðu avókadó- og kjúklingasalati, skreytt með kryddjurtum sem gleðja augað. Skemmtileg framsetning hjá Marentzu. mbl.is/Árni Sæberg
Karrí- og túrmerikpikkluð djöflaegg í anda páskahátíðarinnar passa svo vel …
Karrí- og túrmerikpikkluð djöflaegg í anda páskahátíðarinnar passa svo vel fyrir dögurðinn og skreyta borðið. mbl.is/Árni Sæberg
Ómótstæðileg ostakaka með sítrónu og limoncello, fagurlega skreytt með gulum …
Ómótstæðileg ostakaka með sítrónu og limoncello, fagurlega skreytt með gulum rósablöðum. Þær gerast ekki páskalegri kökurnar og rósablöðin lyfta ostakökunni á hærra plan. Þetta er páskakakan í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Páskadögurður Marentzu

Focaccia-vaffla með reyktum laxi, hleyptu eggi og epla- og sellerísalati

Focaccia-vaffla

6 vöfflur

  • 2 dl hveiti
  • 2 dl vatn
  • 2 egg
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1 laukur
  • 2 tómatar
  • 12 ólífur
  • 1 tsk. ferskt rósmarín eða krydd
  • 50 g fetaostur
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Blandið vel saman í hrærivélarskál hveiti, lyftidufti, salti, pipar, vatni og eggjum.
  2. Skrælið laukinn og skerið í mjög þunnar sneiðar, skerið tómata í litla bita og skerið ólífurnar í þunnar sneiðar.
  3. Saxið rósmarín fínt.
  4. Blandið síðan öllu hráefninu ásamt fetaostinum vel saman við vöffludeigið og hrærið.
  5. Smyrjið vöfflujárnið með smá olíu og bakið vöfflurnar þar til þær eru tilbúnar, fallega gullinbrúnar.

Epla- og sellerísalat

  • 1 grænt epli
  • 2 stilkar sellerí
  • 1-2 dl sýrður rjómi 36%
  • 1 msk. hunang
  • 1 tsk. sætt sinnep
  • 1 tsk. dill
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skræla eplin og skerið síðan í teninga ásamt sellerístönglunum.
  2. Hrærið saman sýrðum rjóma, sinnepi, hunangi og dilli og blandið síðan hráefninu saman við sósuna.
  3. Bragðbætið með salti og pipar.

Meðlæti á vöfflurnar

  • reyktur lax eftir smekk
  • klettasalat eftir smekk
  • linsoðið eða hleypt egg
  • túrmerik
  • reykt paprikukrydd
  • ferskt dill

Samsetning

  1. Setjið tvær matskeiðar af epla- og sellerísalati ofan á vöffluna, síðan smá klettasalat, tvær góðar sneiðar af reyktum laxi og á toppinn hleypt egg eða linsoðið egg sem hefur verið soðið í sjö mínútur.
  2. Stráið smá túrmeriki yfir eggið og reyktu paprikukryddi.
  3. Skreytið að lokum með fersku dilli.
  4. Berið fram á fallegan hátt og njótið.

Maísvöfflur með avókadó og kjúklingasalati

Maísvöfflur

4 stykki

  • 4 dl maís sem er búið að sjóða og hreinsa af stilknum
  • 1 dl skyr
  • 2 egg
  • 2 dl vatn
  • 4 dl maísmjöl eða venjulegt hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • smá pipar

Aðferð:

  1. Setjið maísinn í blandara eða matvinnsluvél og blandið rétt svo, maísinn má gjarnan vera pínu grófur, það getur verið gott að setja smá vatn saman við í blandarann/matvinnsluvélina.
  2. Blandið síðan öllu hráefninu saman ásamt maísnum og látið deigið hvíla í u.þ.b. 15 mínútur.
  3. Setjið olíu á vöfflujárnið og bakið vöfflurnar þar til þær eru tilbúnar eða gullinbrúnar.

Avókadó- og kjúklingasalat

  • 2 avókadó, kjötið tekið úr og skorið í litla teninga
  • 1 stór skalottulaukur, smátt skorinn
  • ½ meðalstór paprika rauð, skorin í teninga
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • 1 msk. chili, mjög fínt saxað
  • ½ búnt ferskt basil, fínt saxað
  • ½ búnt fersk steinselja, fínt söxuð
  • 1 límónusafi og fínt rifinn börkur af límónu
  • 0,5 dl ólífuolía
  • 1 kjúklingabringa

Aðferð:

  1. Byrjið á að rífa kjúklingabringuna niður, það er líka upplagt að nota afgang af kjúklingi sem hefur verið í matinn um hátíðirnar og rífa niður í þennan rétt.
  2. Blandið síðan öllu hráefninu saman með skeið eða gaffli og setjið u.þ.b. eina matskeið af blöndunni á hverja vöfflu.
  3. Einnig má setja allt hráefni nema kjúklinginn í matvinnsluvélina svona rétt aðeins, þá verður salatið aðeins þéttara.

Karrí- og túrmerikpikkluð egg

  • 1 1/3 bolli eplaedik
  • ½ bolli vatn
  • 2 msk. sykur
  • 1 tsk. salt
  • 2 tsk. túrmerik
  • 1 tsk. karrí
  • 1 msk. ljós piparkorn
  • 1 laukur
  • 4 egg

Eggjarauðukrem

  • 1 tsk. piparrótarmauk
  • 1 tsk. gott sinnep
  • 1-2 msk. sýrður rjómi

Ofan á eggjarauðukremið

  • radísusneiðar eftir smekk
  • pikklaður rauðlaukur eftir smekk
  • kryddjurtir eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið nema lauk og egg í pott og látið suðuna koma upp.
  2. Skerið þá laukinn fínt og setjið hann saman við löginn.
  3. Sjóðið fjögur egg í níu mínútur, takið skurnina af þeim og setjið saman við heitan löginn.
  4. Látið kólna og setjið síðan í kæli yfir nótt, munið að láta löginn kólna áður en þið setjið hann í kæli.
  5. Skerið síðan eggin til helminga, takið úr þeim rauðuna og setjið í matvinnsluvél ásamt 1 tsk. af piparrótarmauki, 1 tsk. af sætu sinnepi og 1 til 2 msk. af sýrðum rjóma.
  6. Eggjarauðukreminu er síðan sprautað ofan í eggið og skreytt með radísusneiðum, pikkluðum rauðlauk og kryddjurtum eftir smekk.

Sítrónu- og limoncello-ostakaka

Botninn

  • 100 g smjör
  • 50 g súkkulaði
  • 40 g kókosmjöl
  • 400 hafrakex

Aðferð:

  1. Bræðið smjör í potti, þegar smjörið er brætt takið þá pottinn af hellunni og bætið súkkulaðinu varlega saman við brædda smjörið með sleif, síðan bætið þið kókosmjöli út í og blandið vel saman með sleif.
  2. Myljið síðan hafrakexið í matvinnsluvél og setjið saman við smjörblönduna.
  3. Setjið síðan hring af 24 cm lausbotna tertuformi á fallegan disk og þrýstið kexmulningnum í botninn og aðeins upp með köntunum.
  4. Það er best að klæða hringformið með plastfilmu svo að það verði auðveldara að losa kökuna úr forminu þegar þar að kemur.

Ostakrem

  • 400 g rjómaostur
  • 120 g flórsykur
  • 2 dl rjómi þeyttur
  • ½ dl sítrónusafi
  • 3/4 dl limoncello
  • rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 5 matarlímsblöð
  • 1 pk. Lemon Jello fyrir samsetningu á kökunni

Til skreytingar

  • Gul rósablöð, skoluð og þerruð

Aðferð:

  1. Byrjið á því að leggja matarlímsblöðin í ískalt vatn, í um það bil sjö mínútur.
  2. Þeytið síðan vel saman rjómaost og flórsykur, bætið þá rifna sítrónuberkinum og limoncello saman við blönduna.
  3. Hellið vatninu af matarlímsblöðunum og bræðið þau í sítrónusafanum í örbylgjuofni, bara stutt eða þar til blöðin eru bráðnuð.
  4. Bætið þeim síðan varlega saman við ostablönduna og hrærið vel á meðan.
  5. Blandið loks þeytta rjómanum saman við með sleikju.

Samsetning

  1. Setjið síðan ostakökuna saman.
  2. Byrjið á því að hella ostakreminu yfir kexbotninn og látið kökuna standa í kæli þar til hún er orðin stinn og fín.
  3. Næst takið þið einn pakka af sítrónu-jello, sem fæst í flestum matvörubúðum, bræðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Hellið síðan yfir kökuna og setjið hana aftur inn í kæli og látið hlaupið stífna.
  4. Skreytið þá páskaostakökuna með gulum rósablöðum.
  5. Athugið að skola rósablöðin vel og þerra áður en þau eru sett á kökuna.
  6. Berið fram og njótið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert