Persneskt páskalamb með heimagerðri mangósultu

Ljósmynd/Marta María Winkel Jónasdóttir

Páskarnir eru tíminn til að gera vel við sig þegar kemur að ljúffengum mat. Einhverjir
eru á því að það sé ekki hægt að halda þessa kristilegu hátíð nema borða lamb af einhverju tagi, það er að segja ef súkkulaði er sett utan sviga. Gamla góða lambalærið hittir alltaf í mark en svo má líka setja lambaskanka eða gúllas í pott og láta það hægeldast í góðum félagsskap krydda frá Austurlöndum.

Íhaldssamt fólk vill helst elda alltaf það sama ár eftir ár, en það getur verið hressandi að breyta til og prófa eitthvað nýtt. Kjöt í potti með kryddum og nokkrum töfratrixum er góð hugmynd fyrir matargöt sem elska hægeldaðan mat. Ég hef stundum notað hægeldunartrixið þegar eitthvað stendur til. Sett skrokk í pott og inn í ofn, farið í vinnu og svo er maturinn tilbúinn þegar vinnuskyldu lýkur. Þetta hefur þó einu sinni klikkað en þá hafði ég óvart stillt ofninn á 180° í stað 100°og viti menn, ekki blasti fögur sjón við þegar potturinn var opnaður. Verstu fréttirnar voru að mágur minn var á leið í mat til okkar með splunkunýja kærustu upp á arminn sem við höfðum ekki hitt áður. Hennar fyrstu kynni af okkur hjónunum voru þau að við kynnum alls ekki á bakaraofn.

Heimagerð mangósulta er mikið dýrindi.
Heimagerð mangósulta er mikið dýrindi. Ljósmynd/Marta María Winkel Jónasdóttir

Persneskt páskalamb (uppskrift fyrir 4-6)

  • 2 msk. ólífuolía
  • 1 kg lambagúllas (það má nota nautakjöt í staðinn)
  • 3 laukar gróft skornir
  • 5-6 lífræn hvítlauksrif
  • 3 msk. kummín
  • 2 msk. túrmerik
  • 1 msk kanill
  • 2 dósir lífrænir niðursoðnir tómatar
  • 400 ml vatn
  • 5 msk. balsamedik
  • 2 lárviðarlauf
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð: 

  1. Byrjið á því að stilla ofninn á 170°.
  2. Skerið niður lauk og hvítlauk.
  3. Setjið ólífuolíu í steypujárnspott með loki eða leirpott og setjið laukinn út í ásamt hvítlauk.
  4. Þá er kjötinu blandað saman og svo er öllu kryddi bætt út í og líka lárviðarlaufum.
  5. Niðursoðnu tómötunum er bætt út í ásamt vatninu.
  6. Allt hrært vel saman og sett inn í ofn í 30 mínútur.
  7. Þá er hitinn lækkaður í 100° og er rétturinn látinn eldast í ofni í fimm klukkutíma.

Heimagerð mangósulta

Páskar eru tilvaldir til að prófa eitthvað nýtt og spennandi sem fólk hefur lagt í vana sinn að kaupa tilbúið. Með því að búa til mangósultu frá grunni þá losnar fólk við inntöku á aukefnum sem eru gjarnan í tilbúnum vörum eins og þessari. Það tekur um það bil klukkutíma að búa til mangósultu frá grunni og svo geymist hún í viku í lokaðri krukku í ísskáp. Hún til dæmis mjög góð með hægelduðu lambi en líka góð með geitaosti og kexi.

  • 2 bollar sykur
  • 1 bolli hvítt edik
  • 4 til 5 stór, þroskuð mangó afhýdd og skorin í litla bita.
  • 1 meðalstór laukur, saxaður
  • 1/2 bolli (80 g) gullnar rúsínur
  • 1/4 bolli þurrkað engifer, smátt saxað
  • 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
  • 1 tsk heil sinnepsfræ
  • 1/4 tsk rauðar piparflögur

Aðferð: 

  1. Byrjaðu á því að gera sykuredikssírópið.
  2. Blandið sykrinum og ediki saman í stórum potti. Láttu suðuna koma upp og hrærið þar til sykurinn leysist upp.
  3. Þá er mangóinu blandað saman ásamt þurrkaða engiferinu, hvítlauksgeiranum, lauknum og kryddum blandað saman. Það þarf að sjóða þetta allt saman í 45 mínútur til klukkutíma og það þarf að hræra í því á meðan á eldun stendur.

Mulinn fetaostur!

Hreinn fetaostur er góður með nánast öllu. Út á salat eða með páskalambinu. Prófið að kaupa fetakubb, stappa hann með gaffli og setja lífræna ólífuolíu út á.

  • 200 g af hreinum fetaosti
  • 1 msk. lífræn ólífuolía
  • salt og pipar eftir smekk
  • 3-4 blöð af ferskri basilíku skorin smátt og sett út á

Aðferð: 

Settu ostinn á disk eða í skál og stappaðu hann með gaffli. Þá er ólífuolíunni hellt út á og svo er saltað og piprað og skreytt með ferskri basilíku.

Stappaður fetaostur með lífrænni ólífuolíu, salti og pipar og ferski …
Stappaður fetaostur með lífrænni ólífuolíu, salti og pipar og ferski basilíku smakkast vel. Ljósmynd/Marta María Winkel Jónasdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka