Húsó-kjötbollur sem yngri kynslóðin er sólgin í

Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum deilir með lesendum uppskrift …
Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum deilir með lesendum uppskrift úr smiðju Húsó að kjötbollum með pasta og rauðri sósu. Samsett mynd

Fastur liður á laugardagsmorgnum á matarvefnum eru leyndardómsfullu uppskriftirnar úr Húsó-eldhúsinu í Hússtjórnarskólanum sem njóta mikilla vinsælda hjá lesendum. Að þessu sinni deilir Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans með lesendum uppskrift að kjötbollum með pasta og sósu sem sáraeinfalt er að gera. Þetta er svona ekta íslenskur heimilismatur og yngri kynslóð er oftar en ekki sólgin í kjötbollur og pasta.

Kjötbollur bornar fram með pasta og heitri rauðri sósu sem …
Kjötbollur bornar fram með pasta og heitri rauðri sósu sem yngri kynslóðin elskar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjötbollur með pasta og sósu

Kjötbollur

  • 600 g nautahakk
  • 3 dl brauðrasp
  • 2 msk. hveiti
  • 1 dl mjólk
  • 1 egg
  • 1 laukur
  • 1 tsk. basilíka
  • 1 tsk. salt
  • ½ tsk. pipar

Aðferð:

  1. Hrærið saman hakki, brauðraspi, eggi, mjólk, saxið laukinn og bætið út í, kryddið.
  2. Mótið litlar bollur með höndunum og raðið á ofnskúffu með bökunarpappír.
  3. Steikið í ofni við 200°C hita í 20-25 mínútur.

Soðið pasta

  • 300 g pastalengjur eða annað pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka, ef ekki eru leiðbeiningar.

Aðferð:

  1. Hitið 1 ½ lítra af vatni í potti, setjið ½ tsk. salt og 1 tsk. olíu saman við. Þegar vatnið er byrjað að sjóða er pastað sett í pottinn og soðið í 13-15 mínútur. Sett á sigti og skolað þegar það er soðið.
  2. Ef þið notið spaghettí, þá er því ýtt varlega ofan í suðuvatnið, ekki brjóta það!

Sósa

  • 1 laukur, saxaður
  • 1 msk. olía
  • 2 hvítlauksrif, marin
  • 400 g niðursoðnir tómatar
  • 3 dl vatn
  • 4 msk. tómatmauk
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 1 tsk. basilíka
  • 1 ½ tsk. oreganó
  • ½ tsk. svartur pipar
  • 1 tsk. sykur, má sleppa
  • Salt

Aðferð:

  1. Saxið laukinn og merjið hvítlaukinn.
  2. Mýkið laukinn aðeins í olíunni í potti.
  3. Setjið restina af hráefnunum saman við og hitið að suðu.
  4. Sósan er borin fram heit.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka