Margrét Ríkharðsdóttir, alla jafna kölluð Magga, yfirkokkur og einn eigenda á veitingastaðnum Duck & Rose toppar sig enn og aftur með þessum snilldar lúxus núðlurétti hægt er að galdra fram á mettíma. Svo góður og fáránlega einfaldur.
Margrét Ríkarðsdóttir nýtur þess að borða þennan núðlurétt með prjónum, finnst það skapa meiri stemningu með verið er að njóta matarins.
mbl.is/Árni Sæberg
„Þetta er minn „go to“ réttur þegar ég nenni ekki að elda eða langar í eitthvað extra næs með lítilli fyrirhöfn. Það tekur enga stund að galdra þennan núðlurétt fram. Þetta er líka réttur sem ég hendi oft í ef ég var með steik kvöldið áður og þá nota ég afgangskjötið. Það má auðvitað nota hvaða grænmeti í réttinn og tilvalið að grípa það sem er til í kælinum,“ segir Magga og brosir.
Lúxus núðlur á mettíma
Fyrir 4
- 400-500 g nauta mínútusteik (ef þú átt afgangs nautakjöt frá kvöldinu áður sem er eldað er líka fullkomið að nota það)
- 4 pk. Thai choice núðlur með tom yum bragði, sniðugt að vera með kjúklingabragð fyrir börn svo sé ekki of sterkt
- ½ flaska Thai choice teriyakisósa
- 2 dl vatn
- Ferskt kóríander ef vill
- Hunangshnetur ef vill
- 1 haus brokkolí
- 1 stk. rauð paprika
- 4 stk. gulrætur
- 1 stk. ferskt chili, má sleppa
- 8 geirar hvítlaukur eða 2 heilir hvítlaukar
- 1 kubbur kjúklingakraftur
Aðferð:
- Byrjið á að setja vatn í pott fyrir núðlurnar og látið það sjóða á meðan þið skerið grænmetið.
- Takið hvítlaukinn og chili til hliðar en það fer síðar á pönnuna.
- Þegar grænmetið er klárt þá bætið þið því á funheita pönnu með smá olíu.
- Allra best er að nota wok pönnu en það er hægt að nota hvernig pönnu sem er.
- Meðan þið steikið grænmetið er upplagt að skera kjötið í munnstærðar bita.
- Bætið síðan kjötinu út á pönnuna og steikið.
- Þegar kjötið er búið að brúnast bætið þá saman við hvítlauk og chili og smá kjúklingakrafti.
- Loks bætið þið við teriyakisósunni og vatninu og látið suðuna koma upp og lækkið síðan hitann í 1-2 og leyfið að malla á pönnunni meðan þið sjóðið núðlurnar.
- Sjóðið núðlurnar aðeins lengur heldur en stendur á pakkningunni.
- Hellið síðan öllu vatninu af og setjið kryddið út í pottinn og hrærið vel.
- Setjið loks núðlurnar í skál, kjötið, grænmetið og sósuna svo yfir. Ef þið eigið góðar hnetur er tilvalið að saxa smá af þeim yfir og ásamt smá fersku kóríander en það er ekki nauðsyn.
- Berið fram með prjónum ef ykkur langar að vera með extra stemningu, það er ávallt gaman að borða núðlur með prjónum.