Þegar framreiða á Egg Benedict er ómissandi að kunna að búa til bragðgóða og fallega Hollandaise-sósu. Galdurinn er að nostra við sósugerðina og leggja metnað í að hafa áferðina létta og flauelsmjúka. Hér er uppskrift að þessari dýrð sem á rætur sínar að rekja til Gunnar Karls, matreiðslumanns og Michelin-stjörnukokks, og ég hef gert þessa í mörg ár. Sósan er líka afar góð með fiskréttum en þessa dagana er þetta aðalsósan sem boðið er upp á þegar Egg Benedict er framreidd.
Hollandaise-sósa
Fyrir 3-4
- 3 msk. vatn
- 1 msk. hvít piparkorn eða hvítur pipar
- 1 msk. hvítvínsedik, hvítvínsedikið frá Olifa er ótrúlega gott
- 3 stk. eggjarauður, meðalstór egg
- 200 g smjör
- 1 tsk. sítrónusafi, úr ferskri sítrónu
- Salt eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að setja vatn, piparkorn og hvítvínsedik í pott og sjóðið niður þar til um ein matskeið er eftir af vökva.
- Takið pottinn af hitanum og kælið aðeins.
- Pískið síðan saman eggjarauður og setjið pottinn yfir vatnsbað.
- Hitið við mjög vægan hita, má alls ekki fara yfir 60°C hita og pískið allt vel saman í pottinum í 2-3 mínútur.
- Bræðið smjörið og hellið saman við í mjórri bunu í smá skömmtum í einu.
- Smakkið sósuna til með salti, pipar og sítrónusafa, má nota ögn meira af sítrónusafa ef vill.
- Sigtið sósuna og berið fram eða hellið yfir hleypta eggið ef það er rétturinn sem bjóða á upp á.