Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og eigandi veisluþjónustunnar ZAK, gefur lesendum matarvefsins góð húsráð alla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina og baksturinn. Ísak veit líka vel að það skiptir miklu máli að vera með réttu tækin og tólin í eldhúsinu og gefur líka góð ráð þegar kemur að eigulegu hlutum í eldhúsinu og meðferð þeirra sem gerir matreiðsluna og störfin í eldhúsinu auðveldari. Að þessu sinni gefur hann góð ráð um mikilvægi þess að halda eldhúsinu hreinu.
Hver hefur ekki lent í því að elda frábæra máltíð fyrir sig og aðra en síðan þegar máltíðinni er lokið situr viðkomandi uppi með fjall af hlutum sem þarf að setja í uppvaskið? Ég hef lent í því og þess vegna er mikilvægt að þrífa á meðan maður er að elda, vera skilvirkur. Í þessar átta mínútur sem pastað er að sjóða er tilvalið að henda nokkrum diskum og sleikjum í uppþvottavélina eða taka tusku og spreyja yfir eldhúsborðið á meðan fiskurinn er inn í ofni. Allt þetta litla telur og gerir verkið auðveldara. Það er nefnilega svo erfitt að vinna verk á meðan það er allt í drasli í kringum mann, en þetta á við margt annað en bara að elda.