Ostasalatið sem þú verður að smakka

Þetta ostasalat er mikil bragðbomba og slær í gegn í …
Þetta ostasalat er mikil bragðbomba og slær í gegn í öllum veislum. Ljósmynd/Andrea Gunnarsdóttir

Ostasalöt njóta ávallt mikilla vinsælda þessa dagana hjá landsmönnum og það eru allflest bakarí landsins líka komin með ostasalöt til sölu. Heimagerð ostasalöt eru mjög vinsæl og margir hafa þróað sín eigin ostasalöt og valið sitt uppáhald í salötin. Það er ávallt gaman að fá nýjar uppskriftir af ostasalötum og prófa nýtt bragð.

Mikil bragðbomba

Andrea Gunnarsdóttir matarbloggari elskar ostasalöt og hefur gert mikið af þeim klassísku gegnum tíðina. Hún þróaði uppskrift að ostasalati á dögunum og fullyrðir að það sé það besta sem hún hefur smakkað. Þetta er ostasalat með beikoni, döðlum, chili og kryddídýfu. Mikil bragðbomba og mjög ólíkt hinu klassíska ostasalati með vínberjum, papriku og ananaskurli.

„Ég hef verið beðin um að koma með þetta ostasalat í margar veislur og það slær ávallt í gegn og þegar ég kom með þetta ostasalat í afmæli bestu vinkonu minnar á dögunum leist henni ekkert á blikuna þegar hún sá hvað salatið var að hverfa hratt og gekk frá því inn í ísskáp svo hún gæti notið þess eftir veisluna,“ segir Andrea og hlær.

Ostasalat með beikoni, döðlum, chili og kryddídýfu

  • 1 pepperóní ostur, rifinn eða skorinn í teninga
  • 1 mexíkóostur, rifinn eða skorinn í teninga
  • ½ rauð paprika, smátt söxuð
  • ½ rauðlaukur, smátt saxaður
  • 1 rautt chili, fræhreinsað og skorið smátt
  • 6 stórar döðlur, smátt saxaðar
  • 250 g stökkt beikon, smátt saxað
  • Rauð vínber eftir smekk, skorin í fernt
  • 1 dós rauð Voga ídýfa (kryddídýfa)
  • 4-5 msk. majónes
  • 1 ½ tsk. Bezt á flest kryddblanda

Aðferð:

  1. Blandið öllu hráefninu saman í skál og geymið í lokuðu íláti í ísskáp í að minnsta kosti 6 klukkustundir fram að notkun.
  2. Berið fram með kexi, snittubrauði, súrdeigsbrauði, tengdamömmutungum eða hverju sem hugurinn girnist, þetta ostasalat er gott með öllu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka