Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og eigandi veisluþjónustunnar ZAK, gefur lesendum matarvefsins góð húsráð alla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina og baksturinn. Ísak veit líka vel að það skiptir miklu máli að vera með réttu tækin og tólin í eldhúsinu og gefur líka góð ráð þegar kemur að eigulegu hlutum í eldhúsinu og meðferð þeirra sem gerir matreiðsluna og störfin í eldhúsinu auðveldari. Að þessu sinni ljóstrar Ísak upp leynitrix sem kokkar nota til að grafa fisk.
Að létt grafa fisk er leynitrix hjá kokkum og miklu einfaldara en marga grunar. Fyrst tekur þú 500 g af salti og 500 g af sykri, blandar því saman í skál. Næsta skref er að þú tekur salt og sykur gröftinn, eins og hann er kallaður, dreifir honum á bakka og setur fiskinn ofan á. Síðan þekur þú fiskinn greftinum og gott að setja mikið af honum á fiskinn. Settu síðan fiskinn í kæli en eftir 30 mínútur skolarðu fiskinn og þerrar. Eftir þessa meðhöndlun er mun hentugra að steikja, gufusjóða eða baka fiskinn.