Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og eigandi veisluþjónustunnar ZAK, gefur lesendum matarvefsins góð húsráð alla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina og baksturinn. Ísak veit líka vel að það skiptir miklu máli að vera með réttu tækin og tólin í eldhúsinu og gefur líka góð ráð þegar kemur að eigulegu hlutum í eldhúsinu og meðferð þeirra sem gerir matreiðsluna og störfin í eldhúsinu auðveldari. Að þessu sinni gefur Ísak lesendum góð ráð þegar setja á rasp á mat, eins og fisk og kjötmeti.
„Þegar þú setur rasp á mat til dæmis fisk eða kjöt þá er alltaf gott að muna að ein hendi skal vera blaut og hin þurr. Segjum að þú ætlar að gera ýsu í raspi, þú setur ýsubitann í hveitið, síðan eggið, síðan raspinn og þú ert kominn með þykka kekki á puttana. Það er létt að komast fram hjá þessu en með því að hafa eina höndina sem dýfir fisknum í eggið og hina í hveitið og raspinn. Nú verða hendur þínar aðeins bærilegri, gott ráð er líka að setja salt og hvítan pipar í hveitið til að fá meira bragð þegar þú steikir fiskinn,“ segir Ísak.