Sælkerafiskibaka sem steinliggur

Þessi fiskibaka á eftir að gera mánudagskvöldið enn betra.
Þessi fiskibaka á eftir að gera mánudagskvöldið enn betra. Ljósmynd/Halla Bára

Hér er á ferðinni uppskrift að einstaklega góðri fiskiböku sem kemur úr smiðju Höllu Báru Gestsdóttur en hún gerir reglulega uppskriftir fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn. Einnig eru hér hugmyndir að tveimur hvítum sósum sem má nota í réttinn. Þið getið valið þá sósu sem heillar ykkur. 

Fiskibaka að hætti Höllu Báru

  • Kartöflumús eða stappaðar kartöflur með smjöri og smá mjólk, eftir smekk
  • 4 stk. harðsoðin egg, skerið í bita
  • 700 g fiskur að eigin vali eða sjávarfang
  • Rifinn gratínostur eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C.
  2. Skerið fiskinn í litla bita og dreifið úr honum í eldfast mót.
  3. Dreifið úr eggjunum yfir fiskinn.
  4. Hellið sósunni yfir fiskinn og dreifið vel úr henni, hvort sem þið notið þá heitu eða köldu.
  5. Setjið síðan kartöflumúsina eða stöppuðu kartöflurnar yfir allt saman.
  6. Stráið loks rifnum osti yfir allt.
  7. Setjið fatið inn í ofn og bakið í  40-45 mínútur.
  8. Berið fiskibökuna fram með salati, brauði eða hverju sem hugur ykkar girnist.

Hvít sósa I

  • 50 smjör
  • 50 hveiti
  • 6 dl mjólk
  • 2 tsk. dijon sinnep
  • safi úr hálfri sítrónu
  • 50 g   rifinn gratínostur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Saxað spínat eftir smekk. Má mýkja það á pönnu í smá smjöri eða olíu og vökvinn tekinn frá.

Aðferð:

  1. Bræðið smjör í potti á miðlungshita.
  2. Hrærið hveiti saman við, látið malla í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan eða þar til smjörbollan fer að fá á sig pínu gullinn blæ.
  3. Hellið mjólk saman við í smá skömmtum og hrærið sósuna til þar til úr verður kekkjalaus jafningur.
  4. Látið hana malla í nokkrar mínútur á vægum hita.
  5. Hrærið ost saman við sósuna, látið hann bráðna saman við.
  6. Smakkið til með salti og pipar.
  7. Hrærið spínat saman við og blandið vel. Spínatið má fara ferskt og saxað út í sósuna.

Hvít sósa II

  • 500 ml sýrður rjómi
  • 2 tsk. dijon
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • 50 g rifinn gratínostur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ferskt spínat eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið saman í skál og hrærið vel saman.
  2. Bætið við fersku spínati og hrærið vel saman við sósuna. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka