Eyjan Tenerife hefur laðað til sín Íslendinga um langa hríð. Hlýtt loftslag þar allt árið um kring gerir það að verkum að eyjan er eftirsótt allan ársins hring.
Á Tenerife er heillandi lítið sjávarþorp sem heitir La Caleta og er staðsett stuttlega frá einum af mest heimsóttu svæðum eyjunnar Playa de las Américas eða ameríska ströndin. La Caleta tilheyrir Adeje svæðinu á suðvesturhluta Tenerife norðan megin við amerísku ströndina. Fólk sem er svo heppið að vita af þessum litla leyndardómsfylla svæði, hefur tilhneigingu til að koma þangað aftur og heimsækja veitingastaðina þar er að finna en þar eru þó nokkrir af betri gerðinni.
Char steikarstaðurinn er einn þeirra veitingastaða sem greinarhöfundur heimsótti í La Caleta þorpinu nýlega. Mín skoðun er sú að fínn matur eigi ekki bara að snúast um frábæra máltíð. Það skiptir líka máli að upplifunin sé hlýleg, þar sem starfsfólk veitingastaðarins tekur vel á móti gestunum og því tekst að vera þjónustulundað, natið og glaðlynt án þess að það sé yfirborðskennt á nokkurn hátt.
Char er einmitt svona staður, þar sem þú upplifir þig velkomin, þjónarnir natnir og leggja sig mikið fram við að gera kvöldið eftirminnilegt. Ef þú ert að leita að góðri steik ágæti lesandi á Tenerife, þá er Char einmitt frábær steikarstaður til að njóta afbragðs hráefnis sem er sérvalið og matseðil með góðu úrvali af fjölbreyttum réttum ásamt fínum vínseðli. Matseðillinn er samsettur af spænskum hefðum í bland við keim af alþjóðlegum réttum.
Pistlahöfundur var svo lánsamur að fá úthlutað borð beint fyrir framan eldhúsið sem minnti nánast á „Chef table“ sem gerir gestunum kleift að sjá matreiðslumennina að störfum. Það var upplifun að horfa á hæfileikaríka kokkana útbúa alla réttina fyrir gestina, fumlaust, áreynslulaust og af ástríðu. Hins vegar er líka hægt að sitja alveg upp við eldhúsið á barstólum og eiga þá í persónulegum samskiptum við kokkana og fá algjörlega matseldina beint í æð.
Veitingastaðurinn er hlýlegur og flott hannaður veitingastaður með notalegt andrúmsloft sem gerir út á að bjóða gestum upp á „crème de la crème“ af steikum til að tryggja að matarupplifun þín verði sannarlega eftirminnileg. Vínþjóninn eða sommelier á staðnum aðstoðar gestina við að finna fullkomna samsvörun fyrir hvern rétt á matseðlinum.
Greinarhöfundur fór í þeim tilgangi að panta sér góða steik. Fyrir valinu varð grilluð angus nautalund, sem steikt var að ósk minni ásamt einföldu meðlæti, sítrus blönduð bearnaise-sósu og röstí kartöflustrá með trufflum sem komu sérlega á óvart. Bestu kartöflustrá sem undirrituð hefur bragðað en áferðin og bragðið komu bragðlaukunum á flug.
Við komuna var boðið upp á ljúffengan smakkrétt til að hefja matarupplifunina og í framhaldi var boðið upp á heimabakað súrdeigsbrauð ásamt tveimur tegundum af kryddsmjöri að hætti hússins. Í forrétt valdi ég grillaðar rækjur með ferskum hvítlauk og reyktri papriku. Til að ljúka upplifuninni varð brennd ostakaka fyrir valinu og óhætt að segja að hún hafi verið syndsamlega góð.
Hið litla aldna sjávarþorp La Caleta er töfrandi staður. Staðurinn Char er blanda af veitingastað í anda við það sem mætti heimfæra yfir á veitingahús með borgarbrag en jafnframt með snert af rómantík og hlýleika í nánd við fallega strandlengjuna. Það er algjörlega þess virði að prófa Char þegar ferðalangar heimsækja Tenerife.