Ljúffengt flatbrauð með zaatar

Flatbrauðið má bera fram með ýmsum kræsingum og það er …
Flatbrauðið má bera fram með ýmsum kræsingum og það er ótrúlega gott meðlæti með miðausturlenskum réttum. Samsett mynd

Fátt er betra en nýbakað ljúffengt flatbrauð með girnilegum kræsingum. Safa Jemai matgæðingur og eigandi Mabrúka sem flytur inn heimagerð túnisk krydd á heiðurinn að þessari uppskrift af ekta túnisku flatbrauði sem vel er hægt að mæla með. Brauðið er steikt á pönnu með ólífuolíu, kryddað með zaatar og ilmurinn er svo lokkandi þegar það kemur ný steikt af pönnunni. Flatbrauðið er hægt að borða eitt og sér eða með hummus, ekta falafelbollum, miðausturlenskum sósum og jafnvel gera dýrðlega vefju úr því með kjúkling og fleira góðgæti.

Flatbrauð með zaatar

  • 500 g semolina-hveiti
  • 250 g hveiti
  • ½ tsk. ger
  • 1 tsk. salt
  • 500 ml vatn

Til steikingar

  • Ólífuolía eftir smekk
  • Salt eftir smekk
  • Zaatar frá Mabrúka, eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að blanda saman þurrefnunum í hrærivélaskál.
  2. Blandið saman og bætið svo vatninu varlega saman við þar til deigið er frekar klístrað.
  3. Leyfið skálinni með deiginu að standa örlítið svo deigið geti tekið sig, um það bil 30 mínútur.
  4. Byrjið svo að hnoða og skipta deiginu í jafnar kúlur.
  5. Fletjið svo deigið út og steikið jafnóðum á miðlungshita upp úr ólífuolíu á pönnu og kryddið til með zaatar og salti.
  6. Berið fram með því sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert