Lostæti þessi heimagerða focacciasamloka

Ómótstæðilega girnileg heimagerða focaccia samlokan hennar Völlu með burrataosti og …
Ómótstæðilega girnileg heimagerða focaccia samlokan hennar Völlu með burrataosti og alls konar góðu áleggi. Ljósmynd/Valla Gröndal

Focacciasamlokur í allskonar útgáfum hafa farið eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum síðustu vikur. Það skal engan undra því þvílíkt lostæti sem slíkar samlokur eru og hefur undirrituð prófað nokkrar útgáfur. Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, er ein þeirra sem er búin að setja saman síðan uppáhaldssamloku og það er heimagerð focacciasamloka með burrat osti og öllu uppáhaldsálegginu hennar.

Vert er að taka fram að er hægt að nota hvaða álegg sem er á milli eftir smekk hvers og eins. Valla velur yfirleitt það sama, hún smyr brauðið með grænu pestói, raðar svo í einhverri röð hráskinku, tómötum, klettasalati og toppurinn hjá henni burrataosturinn sem verður alltaf að vera með að hennar mati. Valla deildi með fylgjendum sínum á Instagram-síðu sinni hvernig baksturinn á brauðinu fer fram og hægt er að sjá myndbandið hér fyrir neðan.

Heimagerðar focaccia samlokur með burrataosti að hætti Völlu

Focacciabrauð með rósmarín & Feyki osti

  • 540 g 37° heitt vatn
  • 40 g hunang
  • 2 ½ tsk. þurrger
  • 715 g hveiti
  • 2 tsk. himalayasalt
  • 55 g kaldpressuð ólífuolía + auka til þess að smyrja ofnplötuna og dreifa yfir brauðið.
  • 40 g Feykir ostur, rifinn
  • Ferskt rósmarín eftir smekk
  • Sjávarsalt eftir smekk

Aðferð:

  1. Velgið vatnið og hellið því í stóra skál. Valla setur skálina á vigt og vigtar vatnið í stað þess að nota mælikönnu, svona er þetta nákvæmara.
  2. Setjið hunang út í vatnið og hrærið í með písk.
  3. Bætið þurrgerinu út í og bíðið í örfáar mínútur.
  4. Setjið þá hveitið og saltið saman við og hrærið með sleif.
  5. Þegar deigið er orðið nokkurn veginn samlagað, bætið þá olíunni saman við og haldið áfram að hræra í með sleifinni. Deigið er mjög blautt en hafið engar áhyggjur, þannig á það að vera.
  6. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að standa í 30 mínútur.
  7. Takið þá sleikju og skafið kantana upp með sleikjunni og brjótið deigið yfir sjálft sig. Á ensku er talað um „fold“ en það er aðferð sem mikið er notuð í súrdeigsbakstri. „Brjótið“ deigið um það bil 40 sinnum. Þetta er gert til þess að styrkja glútenið og er ein tegund hnoðunar.
  8. Leyfið deiginu að hvílast í 20 mínútur og gerið aftur eins og áður, brjótið deigið um 40 sinnum. Hvílið þá í 20 mínútur.
  9. Takið fram hreina ofnskúffu og dreifið 2-3 msk. af ólífuolíu yfir. Smyrjið með pensli svo öll skúffan sé þakin olíu.
  10. Setjið deigið á ofnplötuna og togið það aðeins til. Leyfið því að vera í friði svo í skúffunni í 15 mínútur.
  11. Hellið örlítilli ólífuolíu yfir fingurna og togið deigið út í átt að köntunum svo það þeki plötuna alveg. Dreifið um það bil 2 msk. af ólífuolíu yfir deigið og ýtið niður í það með fingurgómunum svo það myndist holur. Setjið plastfilmu yfir plötuna og hefið í 2 klukkustundir.
  12. Rífið ostinn og slítið rósmarín nálar af greinunum, setjið til hliðar. Magn rósmaríns fer eftir smekk en Valla notaði um 1 ½ grein.
  13. Hitið ofninn í 220°C blástur.
  14. Þegar 2 klukkustundir eru liðnar og deigið orðið vel hefað setjið þá aftur ólífuolíu á fingurna og ýtið niður með fingrunum eins og áður. Setjið rósmarín yfir hefað deigið og stráið sjávarsalti yfir, magn eftir smekk.
  15. Setjið ofnplötuna inn í ofninn og bakið í 12-15 mínútur. Takið þá plötuna út og dreifið ostinum yfir. Haldið áfram að baka í 10 mín í viðbót eða þangað til brauðið er orðið vel gyllt og fallegt.
  16. Leyfið mesta hitanum að rjúka úr brauðinu og færið það síðan yfir á grind.
  17. Skerið brauðið í ferninga, stærð ferninganna fer eftir því hversu stórar samlokur þið viljið gera.

Tillögur að áleggi:

  • Grænt pestó
  • Ferskar litlar mozzarellakúlur
  • Ferskur Burrataostir
  • Tómatsneiðar
  • Hráskinka
  • Þurrkað salami með trufflum
  • Klettasalat
  • Ólífuolía
  • Sjávarsalt
  • Rifinn Feykir ostur
  • Fersk basilíka

Aðferð:

  1. Í hvaða röð áleggið fer á samlokurnar skiptir engu máli fyrir utan að Völlu finnst best að byrja á því að smyrja brauðið með pestói.
  2. Valla setur yfirleitt kjöt og osta til skiptis og grænmeti einhvers staðar með fram. Toppar svo með góðri ólífuolíu, sjávarsalti og rifnum parmesanosti eða Feyki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert