Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og eigandi veisluþjónustunnar ZAK, gefur lesendum matarvefsins góð húsráð alla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina, baksturinn og þegar grilla skal. Að þessu sinni gefur Ísak góð ráð þegar elda á í ofninn fullt eldfast mót eða bakka af krásum en fólk á það til að yfirfylla bakkana og mótin svo eldunin á hráefninu verður ekki rétt.
„Þegar það er eldað í ofni er mikilvægt að dreifa matnum jafnt á bakka eða í eldfast mót. Hver kannast ekki við að ætla baka sætkartöflubita og bitarnir að ofan eru mjúkir en þeir fyrir neðan eru grjótharðir en það gerist því hitinn nær ekki utan um allt hráefnið. Sama gildir um fisk og kjöt, matur leysir frá sér vatn þegar hann er eldaður og ef bakkinn er of pakkaður getur það valdið því að kjötið eða fiskurinn soðni við eldunina. Þetta er hægt að koma í veg fyrir með því að dreifa á stærri bakka eða eldfast mót, það hjálpar hráefninu að eldast jafnt og léttara er að fá brúnum á matinn. Þetta á við jafnt um fisk, kjöt og grænmeti,“ segir Ísak.