Bakarar mynda vinabönd til lífstíðar

Bernd Kutscher, þýskur bakarameistari og yfirdómari keppninnar, og Sigurður Már …
Bernd Kutscher, þýskur bakarameistari og yfirdómari keppninnar, og Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakara eru báðir þaulreyndir bakarar. mbl.is/Eyþór Árnason

Þetta var í fyrsta sinn sem mótið fór fram hér á landi, sem og á Norðurlöndunum öllum. Í fyrradag sýndu keppendurnir sitt framlag, þar á meðal íslenska liðið, sem bakaði hátíðlega köku, 1,8 metra á hæð, bundna saman með sérstöku matarlími.

Bernd Kutscher yfirdómari mótsins segir þá aðferð vægast sagt óhefðbundna, en óheimilt var að nota óæt hráefni við baksturinn. Lið Íslands þetta árið var skipað tveimur ungum konum, þeim Heklu Guðrúnu Þrastardóttur og Stefaníu Malen Guðmundsdóttur.

Ungir bakarar flykktust til landsins frá öllum heimshornum, en í ár kepptu sjö lönd um sigurtitilinn: Ísland, Kína, Þýskaland, Spánn, Ungverjaland, Frakkland og Svíþjóð.

Með baksturinn í blóðinu

Í dómarasætunum sátu sjö dómarar, einn frá hverju landi, en Kutscher segir dómarana hafa litið til ýmissa þátta við mat á því hver hlyti vinningstitilinn. „Þeir gáfu stig fyrir bragð, útlit, frumleika, nákvæmni og margt fleira.“

Kutscher er þýskur bakarameistari og starfar í dag sem yfirskólastjóri bakaraskóla í Þýskalandi. Faðir hans var líka bakari, en hann átti vinsælt lítið bakarí í Þýskalandi. Þar kynntist Kutscher undraheimi bakkelsisins og var frá blautu barnsbeini staðráðinn í að feta í fótspor föður síns. Hann tók við rekstrinum í nokkur ár og stofnaði samhliða því netsíðu þar sem seldar voru hágæðakökur. Undanfarið hefur hann þó einbeitt sér að skólastjórn.

Eitt af hlutverkum Kutschers sem yfirdómara var að ákveða þemað, sem í ár var nefnt „list minnar þjóðar“.

Þær Hekla Guðrún og Stefanía Malen töfruðu fram hátíðlegar kræsingar, …
Þær Hekla Guðrún og Stefanía Malen töfruðu fram hátíðlegar kræsingar, en þema mótsins var „list minnar þjóðar“. mbl.is/Eyþór Árnason

„Hvert lið reyndi að ná fram í bakstrinum list sinnar þjóðar, sem oftar en ekki er ólík milli landa.“ Til að mynda bakaði íslenska liðið köku sem minnti á Íslendingasögurnar. Kutscher hefur smakkað ýmislegt íslenskt góðgæti í heimsókninni og segir flestallt ljúffengt. „Mér finnst kökurnar frábærar en rúgbrauðið er í uppáhaldi hjá mér.“

Þá segir hann Ísland eiga sérstakt hrós skilið fyrir námið sem boðið er upp á. „Það útskrifast héðan frábærir bakarar, og það er greinilegur metnaður fyrir greininni.“ Bernd segir mótið fyrst og fremst eiga að bæta alþjóðleg tengsl. „Þetta víkkar sjóndeildarhringinn hjá ungum bökurum og margir mynda vinabönd til lífstíðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert