Terta forsetafrúarinnar súkkulaði- og kirsuberjatertan ástarblómið ljúfa

Ástarblómið ljúfa, súkkulaði- og kirsuberjaterta eins og Eliza Reid forsetafrú …
Ástarblómið ljúfa, súkkulaði- og kirsuberjaterta eins og Eliza Reid forsetafrú var færð á dögunum í móttöku á Bessastöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finn­ur Guðberg Ívars­son ný­út­skrifaður bak­ari býður upp á helgar­bakst­ur­inn að þessu sinni. Hann út­bjó tert­una ástar­blómið fyr­ir El­izu Reid for­setafrú sem Hekla Guðrún Þrast­ar­dótt­ir og Stef­an­ía Malen Guðmunds­dótt­ir ís­lensku kepp­end­urn­ir á heims­meist­ara­móti ungra bak­ara færðu El­izu þegar hún bauð kepp­end­um til mót­töku á Bessa­stöðum á dög­un­um. El­iza var al­veg hug­fang­in af kök­un­um sem henni voru færðar enda ein­stak­lega fal­leg­ar og metnaðarfull­ar.

Finnur Guðbergur Ívarsson nýútskrifaður bakari býður upp á helgarbaksturinn að …
Finn­ur Guðberg­ur Ívars­son ný­út­skrifaður bak­ari býður upp á helgar­bakst­ur­inn að þessu sinni. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Vert er að hafa í huga að það þarf að gefa sér góðan tíma til að baka og skreyta ástar­blómið, kirsu­berja- og súkkulaðitert­una ljúfu. Í ferl­inu þarf til að mynda að láta hjúp­inn bíða yfir nótt í kæli og láta tert­una standa í kæli í minnst 5 klukku­stund­ir áður en hún er bor­in fram. Það þarf því að gera tert­una dag­inn áður og frysta fyr­ir notk­un.

Sæta og súr­leiki jafna út ríka og beiska bragðið

Kirsu­ber og súkkulaði passa ein­stak­lega vel sam­an vegna þess að sæt og súr­leiki kirsu­berj­ana jafna út ríka, beiska og djúpa bragðið af súkkulaðinu. Súkkulaði og kakó hef­ur flókn­ari bragðnót­ur sem fara vel með ávaxta­rík­um berj­un­um. Kom­bóið býr til ljúf­fenga og skemmti­lega bragðupp­lif­un þar sem and­stæðar bragðteg­und­ir styrkja hver aðra sem ger­ir þessa köku ein­stak­lega skemmti­lega þó við séum í raun­inni bara að vinna með tvö brögð. 

Terta forsetafrúarinnar súkkulaði- og kirsuberjatertan ástarblómið ljúfa

Vista Prenta

Súkkulaði- og kirsu­berja­terta - Ástar­blómið

Súkkulaði svamp­botn

  • 70 g syk­ur                 
  • 2 egg              
  • 70 g hveiti                 
  • 2 tsk. kakó                 
  • 1 ½ tsk. lyfti­duft       

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofn­inn í 210° C hita með blæstri.
  2. Þeytið sam­an egg og syk­ur þar til bland­an verður ljós og létt, um það bil 5 mín­út­ur.
  3. Sigtið þur­refn­in út í og hrærið var­lega sam­an við, passið að hræra ekki of mikið þá fell­ur deigið.
  4. Smyrjið deigið út á smjörpapp­ír um það bil 1 cm þykkt.
  5. Bakið í 10-12 mín­út­ur.

Rauður speg­il hjúp­ur

  • 4 stk. mat­ar­líms­blöð
  • 60 g vatn                               
  • 120 g syk­ur                           
  • 120 g korn­s­íróp                   
  • 80 g niðursoðin mjólk          
  • 120 g hvítt súkkulaði
  • Mat­ar­lit­ur eft­ir smekk

Aðferð:

  1. Setjið mat­ar­límið í kalt vatn og leggið til hliðar.
  2. Setjið syk­ur, vatn, niðursoðna mjólk og korn­s­íróp sam­an í pott og látið sjóða upp.
  3. Takið mat­ar­límið upp úr vatn­inu og bætið út í og hellið svo súkkulaðinu yfir og litið eft­ir smekk.
  4. Setjið í box og geymið yfir nótt.

Kirsu­berjamús

  • 145 g fros­in kirsu­ber           
  • 65 g syk­ur                             
  • 3 stk. mat­ar­líms­blöð            
  • 380 g rjómi                           

Aðferð:

  1. Gott er að finna til formin áður en mús­in er löguð en þetta magn dug­ar fyr­ir um það bil 16-18 cm köku og það er sniðugt að setja matarfilmu um botn­inn á form­inu svo mús­in flæði ekki úr.
  2. Látið frosnu kirsu­ber­in þiðna og setjið í mat­vinnslu­vél eða bland­ara og blandið í safa.
  3. Leggið mat­ar­límið í bleyti í kalt vatn.
  4. Setjið saf­ann og syk­ur­inn sam­an í pott, þegar saf­inn er far­inn að sjóða takið þá mat­ar­límið úr vatn­inu og setjið ofan í saf­ann og blandað vel sam­an.
  5. Látið blönd­una síðan kólna í 10-15 mín­út­ur.
  6. Létt þeytið rjómann á meðan.
  7. Takið sirkað 25% af rjóm­an­um og blandið sam­an við saf­ann og svo blandið síðan rest sam­an við rjómann í 2-3 hlut­um.
  8. Setjið í frysti.

Sam­setn­ing:

  1. Skerið út botn­ana um það bil 1-2 cm minni hlut­föll en kak­an á að vera og setjið ann­an botn­inn neðst í formið.
  2. Setjið síðan helm­ing músar­inn­ar ofan á það svo seinni botn­inn og síðan rest­ina af mús­inni.
  3. Frystið síðan kök­una yfir nótt og hjúpið dag­inn eft­ir.
  4. Hitið hjúp­ur­inn í ör­bylgju í um það bil 30°C hita.
  5. Setjið matarfilmu á borð og skál und­ir kök­una til þess að það sé sem auðveld­ast að þrífa.
  6. Hellið hjúpn­um yfir kök­una, fyrst á kant­ana svo inn á miðju og látið leka af í smá stund.
  7. Setjið síðan kök­una á disk og látið standa í kæli í að minnsta kosti 5 klukku­stund­ir svo hún nái að þiðna.
  8. Síðan er bara að láta ímynd­un­ar­aflið ráða för þegar kem­ur að skreyt­ingu en Finn­ur út­bjó eins kon­ar súkkulaðiblóm ofan á sem kem­ur ein­stak­lega vel út eins og sjá má á mynd­inni.
  9. Berið fram á ástríðufull­an hátt og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert