Bessastaðahnallþóra upp á gamla mátann

Auður Ögn Árnadóttir og Sylvía Haukdal eigendur hjá 17 Sortir …
Auður Ögn Árnadóttir og Sylvía Haukdal eigendur hjá 17 Sortir eru með puttann á púlsinum þegar kemur að þjóðlegum kræsingum fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní sem nálgast óðum. Ljósmynd/Aðsend

Nú þegar landsmenn sjá fram á spennandi tíma á Bessastöðum og þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní er í nánd, eru þau allra spenntustu farin að spá í hátíðarkaffið sem boðið verður upp á og skreyta með íslenska fánanum. Undirrituð leitaði til Auðar Árnadóttur og Sylvíu Haukdal hjá 17 sortum til að fá hugmyndir að þjóðlegu bakkelsi til að bera fram af þessu tilefni og það stóð ekki á svörum.

Gamla íslenska rjómatertan

Að þeirra sögn eru margir fastir á að þjóðhátíðartertan verði að vera hin klassíska íslenska rjómaterta, sérstaklega fólk í eldri kantinum. Þessi þjóðlega terta var hluti af því úrvali sem við buðum upp á á um kosningahelgina og við kölluðum hana Bessastaðahnallþóruna „Við gerðum okkar eftir gamalli uppskrift frá ömmu, en þar eru danskar makkarónukökur muldar niður og bleyttar upp með sherrý eða safanum af kokteilávöxtunum. Síðan koma kokteilávextirnir þar ofan á með rjóma og að lokum er tertan skreytt eftir „smag og behag“ eins og sagt var,“ segir Sylvía. Hún segist hins vegar ekki gefa neinn afslátt þegar kemur að íslenska fánanum og kokteilberjum. „Það verður að vera með svo hún teljist ekta,“ segir hún og hlær. „Rjómatertan hefur ekki verið hluti af okkar kökuúrvali áður og við stefnum ekki á að hún verði það , en það er skemmtilegt að brydda uppá svona nýjungum við ýmis tilefni og höfum við verið duglegar að aðlaga vöruúrvalið því sem er að gerast í þjóðfélaginu hverju sinni. Ég man ekki betur en ég hafi lýst yfir ótímabæru andláti hinnar íslensku rjómatertu í þætti í Landanum fyrir nokkrum árum svo mér sýnist ég þurfa að éta það ofan í mig,“ segir Auður brosandi og bætir við að þessi hafa verið í boði kosningahelgina. „Hún rauk út og mikil ánægja var með hana.

Þjóðlegar kræsingar, hnallþóra og hjónabandssæla.
Þjóðlegar kræsingar, hnallþóra og hjónabandssæla. Samsett mynd

En þau sem vilja losna við baksturinn geta keypt ýmsar þjóðhátiðarkræsingar í Hagkaup fyrir 17.júní en einnig verður hægt að panta þær fyrirfram. Þó að Bessastaðahnallþóran verði ekki í boði þessa helgi getur fólk búist við að sjá sætindi eins og súkkulaðikökur, bollakökur, kleinuhringi og pikknikk box - allt skreytt í stíl við tilefnið þar sem íslenski fáninn verður áberandi.

Hjónabandssæla með rabarbarasultu

„Auk rjómatertunnar er líka tilvalið að baka Hjónabandssælu með rabarbarasultu, við lögum okkar sjálfar, úr rabarbara sem við fengum í íslenskri sveit, sem lyftir kökunni uppá annað plan. Okkar uppskrift að Hjónabandssælu er fengin hjá ömmu minni Halldóru,“ segir Auður en mamma hennar hefur bakað þessu köku í áratugi og hefur mörgum þótt þetta besta sælan sem þeir hafa smakkað.

Pönnukökurnar ómissandi

Aðspurðar segja Auður og Sylvía að þær mæli líka með að fólk skelli í pönnukökur fyrir 17. júní, hvort sem það velji að bera þær fram með sultu og rjóma eða bara upprúllaðar með sykri. Auður lumar á leynitrixi varðandi pönnukökubakstur sem hefur einfaldað henni baksturinn til muna. „Ég geri deigið í könnu á blandaranum mínum og hef aðlagað uppskriftina að mælieiningunum sem eru á könnunni. Þannig get ég dembt öllu í eina könnu án þess að þurfa að óhreinka mæliglös og skeiðar. Svo blanda ég öllu saman i nokkrar mínútur, á minnsta hraða sem blandarinn bíður upp á og helli svo beint úr könnunni á pönnuna. Þetta sparar mikinn tíma og frágang og svo nenni ég helst ekki að byrja nema ég sé með minnst 2-3 pönnur í gangi í einu,“ segir hún sposk á svip.

Upprúllaðar pönnukökur með sykri njóta ávallt vinsælda.
Upprúllaðar pönnukökur með sykri njóta ávallt vinsælda. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka