Syndsamlega góð sítrónu- og bláberjaformkaka

Syndsamlega góð sítrónu- og bláberjaformkaka.
Syndsamlega góð sítrónu- og bláberjaformkaka. Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Sólin er loksins farin að skína þá langar manni létta og ferska köku sem passar vel með freyðandi drykkjum. Sítrónukökur eiga vel við á góðum sólardögum og hér er komin uppskrift að nýstárlegri sítrónu- og bláberjaformköku sem á eftir að hitta í mark þegar sólin skín.

Heiður af þessari dýrindis sítrónu- og bláberjaformköku á Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir hjá Döðlur og smjör. Kakan er mjúk og sæt og sítrónusúr glassúrinn ofan á er fullkominn með kaffibollanum eða freyðandi búbblum út í sólinni.

Sítrónu- og bláberjaformkaka

  • 200 g sykur
  • börkur af einni sítrónu
  • 120 g smjör, brætt
  • 2 egg
  • ½ tsk. salt
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 200 g hveiti
  • 1 dl grísk jógúrt
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. sítrónusafi
  • 2,5 dl bláber

Aðferð:

  1. Stillið ofn á 180°C hita.
  2. Setjið sykur í hrærivélarskál og rífið sítrónubörkinn saman við.
  3. Nuddið honum létt saman við sykurinn með fingrum.
  4. Bræðið þá smjör og blandið saman við sykurinn, hrærið í 3-5 mínútur saman þangað til að blandan er orðin ljós.
  5. Bætið þá eggjunum saman við einu í einu og hrærið vel.
  6. Bætið þá salt, lyftidufti og hveiti saman við og hrærið.
  7. Þá er grísku jógúrtinni, vanilludropum og sítrónusafa bætt við og hrært saman.
  8. Setjið bláberin í skál með smá hveiti og blandið saman með skeið þangað til að berin eru hjúpuð hveiti og bætið þeim saman við deigið og hrærið þeim saman með sleikju
  9. Setjið bökunarpappír í formkökuform og hellið deiginu í formið. Sléttið úr að því að ofan og setjið inn í ofn og bakið í 55-60 mínútur.
  10. Gott er að stinga prjón eða hníf í kökuna og þegar prjóninn kemur hreinn út er kakan klár.

Glassúr

  • 2 dl flórsykur
  • 2-3 msk. sítrónusafi

Aðferð:

  1. Blandið saman flórsykri og sítrónusafa og hellið yfir kökuna þegar hún hefur kólnað lítillega.
  2. Berið fram og njótið í sólinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert