Hátíðlegt og fágað borðhald hjá nöfnunum að tilefni 17. júní

Anna Lísa Rasmussen og Anna Berglind Júlídóttir elska að skreyta …
Anna Lísa Rasmussen og Anna Berglind Júlídóttir elska að skreyta veisluborð. Þær eru búnar að ákveða hátíðarborðið fyrir þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní næstkomandi. Samsett mynd

Nöfnurnar Anna Lísa Rasmussen og Anna Berglind Júlídóttir eru miklir fagurkerar og vita fátt skemmtilegra en að skreyta heimilin sín og leggja fallega á borð. Þegar hátíðleg tilefni eru fram undan eins og þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, leggja þær enn meira í skreytingarnar og fara alla leið. Í ár ætla þær að leggja meira upp úr því að vera með hátíðlegt og fágað borð þar sem 80 ára lýðveldisafmælinu verður fagnað.

Anna Lísa og Anna Berglind eru báðar búsettar í Þorlákshöfn og kynntust árið 2015. „Við komumst fljótt að því að sameiginlegur áhugi okkar var að skreyta heimilið og leggja á borð. Hvorug okkar hefur starfað við það en við erum aðeins farnar að aðstoða fólk við að skreyta fyrir hvers kyns boð og ef tækifæri gefst þá gætum við vel hugsað okkur að taka að okkur verkefni því tengdu en ekki skortir okkur vinkonunum hugmyndaflugið þegar kemur að skreytingum,“ segir Anna Berglind og bætir við að þetta sé líka þeirra ástríða.

Fágaðar og fallegar skreytingar þar sem íslensku fánalitirnir eru forgrunni.
Fágaðar og fallegar skreytingar þar sem íslensku fánalitirnir eru forgrunni. Ljósmynd/Anna Lísa

Gefa fólki einhverjar hugmyndir

„Ef áhugi er fyrir hendi að nýta sér þessa þjónustu er hægt að sjá myndir af borðskreytingum inn á Instagram-síðunni okkar en hún ber heitið Skreytum borð. Tilgangurinn með síðunni er að gefa þeim sem ekki telja sig hafa getu til að skreyta hugmyndir sem hægt er að nýta sér. Þó ekki sé langt síðan við byrjuðum á þessu uppátæki er samt komið töluvert af myndum þarna inn sem ættu að gefa fólki einhverja hugmyndir um hvað við erum að gera,“ segir Anna Berglind enn fremur.

Fara í skrúðgöngu í fylgd með lúðrasveitinni

Aðspurðar segjast þær ávallt taka þátt í hátíðarhöldunum á 17. júní og í framhaldinu bjóða upp á þjóðlegar veitingar og skreyta með íslensku fánalitunum. „Í gegnum tíðina höfum við farið í skrúðgöngu og fylgt okkar stórkostlegu lúðrasveit í Skrúðgarð Þorlákshafnar þar sem 17. júní hátíðardagskráin fer fram. Það er ávallt afskaplega hátíðleg stund. Að henni lokinni höfum við svo oftast farið heim þar sem við höfum verið búnar að leggja á borð fyrir hátíðarkaffið,“ segir Anna Lísa.

Skonsuterta með rækjusalati og rjómapönnukökur

Kræsingarnar sem hefur verið boðið upp á hafa iðulega verið þjóðlegar. „Við höfum lagt upp úr því að hafa einhvers konar tertu skreytta í fánalitunum í tilefni dagsins. Ásamt henni höfum við verið með ýmsa brauðrétti, skonsutertu með rækjusalati sem Auður Helga móðir Önnu Berglindar töfrar ávallt fram og þykir ómissandi eins og rjómapönnukökurnar sem alltaf slá í gegn og eru fullkomnar á hátíðarborðið,“ segir Anna Lísa og bætir við að eftir kaffið séu allir yfirleitt svo vel mettir að þær hafi bara boðið upp á léttan kvöldverð. „Ekki er svo óalgengt að heimilisfólkið læði sér seinna um kvöldið og bæti aðeins á sig af kaffiveitingunum frá því fyrr um daginn.“

Þjóðlega terta í íslensku fánalitunum.
Þjóðlega terta í íslensku fánalitunum. Ljósmynd/Anna Lísa

Hátíðlegra í ár í tilefni að 80 ára lýðveldisafmælinu

„Í ár ákváðum við að hafa borðið í fínni kantinum í tilefni 80 ára lýðveldisafmælis og völdum við því hvítan dúk og bættum við blúndudúk sem tengir okkur við gamla tímann þó þeir séu vissulega klassískir. Við steyptum til að mynda í mótum kertastjaka úr gifsi tölustafina 1,7,0 og 6 eins og sjá má á myndunum. Einnig 8 og 0 í tilefni af afmælinu en við reynum alltaf að hafa eitthvað skraut sem er öðruvísi og einkennir okkur,“ segir Anna Lísa með bros á vör.

Hægt er að fylgjast með nöfnunum á Instagram-síðu þeirra hér.

Frumlegir kertastjakar gerðir úr gifsi með dagsetningunni á þjóðhátíðardegi Íslendinga.
Frumlegir kertastjakar gerðir úr gifsi með dagsetningunni á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Ljósmynd/Anna Lísa
Fallegir dúkar prýða hátíðarborðið og klassískur blúndudúkur setur punktinn yfir …
Fallegir dúkar prýða hátíðarborðið og klassískur blúndudúkur setur punktinn yfir i-ið. Ljósmynd/Anna Lísa
Hvítar rósir í tilefni dagsins ásamt 80 ára afmælis ártalinu.
Hvítar rósir í tilefni dagsins ásamt 80 ára afmælis ártalinu. Ljósmynd/Anna Lísa
Falleg veggskreyting.
Falleg veggskreyting. Ljósmynd/Anna Lísa
Rauður kokteill og hvítir sykurpúðar.
Rauður kokteill og hvítir sykurpúðar. Ljósmynd/Anna Lísa
Fánalitirinir í kræsingunum á mörgum hæðum.
Fánalitirinir í kræsingunum á mörgum hæðum. Ljósmynd/Anna Lísa
Frumlegt og fágað.
Frumlegt og fágað. Ljósmynd/Anna Lísa
Hvíti liturinn er allsráðandi.
Hvíti liturinn er allsráðandi. Ljósmynd/Anna Lísa
Servíettubrotið er falleg hvít rós sem skartar íslenska fánanum. Virðingarvert.
Servíettubrotið er falleg hvít rós sem skartar íslenska fánanum. Virðingarvert. Ljósmynd/Anna Lísa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert