Tom Krús stóð fyrir Ostaköku- og brauðtertukeppni

Tómas Þóroddsson, þekktur undir nafninu Tommi Krús, veitingamaður, er í …
Tómas Þóroddsson, þekktur undir nafninu Tommi Krús, veitingamaður, er í skýjunum með þátttökuna í Ostaköku- og brauðtertusamkeppninni sem haldin var á dögunum. Samsett mynd

Tómas Þóroddsson, alla jafna þekktur undir nafninu Tommi Krús, veitingamaður á Selfossi hefur undanfarin ár staðið fyrir Ostakökukeppni á Kaffi krús á Selfossi. Nú í ár tóku Kaffi krús og Konungskaffi sig saman og stóðu fyrir Ostaköku- og brauðtertukeppni, enda hafa brauðterturnar slegið í gegn á Konungskaffi. Sigurvegarar keppninnar í ár voru Anna Margrét Magnúsdóttir fyrir ostakökuna sína og Jessica Thomasdóttir fyrir sína brauðtertu. 

Jessica Thomasdóttir og Anna Margrét Magnúsdóttir, sigurvegarar í Ostaköku- og …
Jessica Thomasdóttir og Anna Margrét Magnúsdóttir, sigurvegarar í Ostaköku- og brauðtertukeppni Kaffi Krúsar og Konungskaffis. Ljósmynd/sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Segðu okkur aðeins frá tilurð þess að þið tókuð ykkur saman og stóðu fyrir þessari sælkera keppni, Ostaköku- og brauðtertukeppni á dögunum?

„Ég rek Kaffi krús og mágkona mín rekur Konungskaffi, gárungar á Selfossi hafa spurt okkur út í samkeppni á milli staða og á hvorum staðnum sé betra kaffi og kökur og svo má lengi telja. Við bæði erum sannfærð um það að þessi kaffihús styrki hvort annað, enda ólík og ákváðum við yfir kaffibolla að halda sameiginlega keppni. Keppnin var haldin í nýja miðbænum á Selfossi og tókst svona rosalega vel, 16 kökur og tertur voru skráðar til keppni og yfir 300 manns komu til að skoða kökurnar,“ segir Tómas og er í skýjunum með þátttökuna.

Brauðtertugerð annáluð í sveitum landsins

Er mikil ostaköku- og brauðtertumenning á Selfossi?

„Já, ég held það sé meira en annars staðar. Við erum auðvitað með stærsta mjólkurbú landsins og þú þarft rjómaost í ostaköku og skyr í skyrköku. Svo gerir rjóminn og smjör auðvitað allt betra. Eins erum við Selfyssingar flestir komnir af sveitafólki og brauðtertugerð annáluð í sveitum landsins.“

Gekk illa að velja sigurvegarana

Mikil gleði var með þátttökuna og dómnefndin var skipuð sælkerum, brauðtertu- og ostakökuaðdáendum. Í dómnefndinni sátu:

  • Erla Hlynsdóttir frá Brauðtertufélag Erlu og Erlu
  • Ida Sofia Grundberg frá Kökuþróun
  • Silja Hrund Einarsdóttir frá Konungskaffi
  • Torfi Ragnar Sigurðsson sælkeri
  • Ísak Eldjárn Tómasson frá Kaffi Krús
Dómnefndina skipuðu Ísak Eldjárn, Ida Sofia Grundberg, Torfi Ragnar Sigurðsson, …
Dómnefndina skipuðu Ísak Eldjárn, Ida Sofia Grundberg, Torfi Ragnar Sigurðsson, Erla Hlynsdóttir og Silja Hrund Einarsdóttir. Ljósmynd/sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Hvernig gekk dómnefndinni að velja sigurvegarana?

Það gekk mjög illa,“ segir Tómas með bros á vör. „Það voru svo margar kökur sem áttu skilið að vinna og dómnefndin var allt of lengi að störfum, en ég er nokkuð viss um að lokaniðurstaðan var góð. Á næsta ári verðum við með tvískipta keppni, og sitthvora dómnefndina, það er ekki hægt að leggja það á neina manneskju að smakka 16 kökur og tertur á 60 mínútum og sumar nokkrum sinnum,“ segir Tómas sposkur á svip.

Vert er að geta þess sigurkræsingarnar eru báðar komnar í sölu, ostakakan á Kaffi Krús og brauðtertan á Konungskaffi. Svo kaffihúsin skipta þessu jafnt á milli sín og engin samkeppni þar á ferð.

Tómas á Kaffi Krús stóð fyrir ostaköku- og brauðtertukeppni í …
Tómas á Kaffi Krús stóð fyrir ostaköku- og brauðtertukeppni í samstarfi við Konungskaffi sem haldin var í nýja miðbænum á Selfossi. Ljósmynd/Ísak Eldjárn

Keppnin verður tvískipt að ári

„Keppnin verður haldin árlega og erum við að miða við síðustu helgina í maí. Á næsta ári verður hún mun stærri, flottari og einnig tvískipt. Þannig að takið helgina frá fyrir Selfoss síðustu helgina í maí 2025,“ segir Tómas og bætir við að þau sem stóðu að keppninni vilji þakka öllum þeim keppendum, dómurum og þeim sem mættu að skoða kökurnar kærlega fyrir frábæran dag.

Fram undan er stór þjóðhátíðarhelgi, þar sem Íslendingar halda upp á 80 ára lýðveldisafmæli og 17. júní verður á mánudaginn næstkomandi. Búast má við því að brauðtertur og ostakökur verði vinsælar á hátíðarborðum landsmanna. Aðspurður segir Tómas að allt verði fremur hefðbundið á Kaffi krús en staðurinn hafi þróast meira út í að vera veitingastaður. „Við erum alltaf með krakkaköku fyrir yngstu kynslóðina á þjóðhátíðardaginn. Konungskaffi verður með mikla áherslu á brauðtertur og vöfflur ásamt öllum hinum þjóðlegu kræsingunum.“

Hulunni svipt af uppskriftunum að vinningskræsingunum

Hulunni af uppskriftunum að vinningskræsingunum, ostakökunni ljúfu og brauðtertunni, verður svipt á Matarvef mbl.is um helgina. Lesendur matarvefsins eiga því von á spennandi uppskriftum fyrir þjóðhátíðargleðina.

Anna Margrét Magnúsdóttir bar sigur úr býtum fyrir ostakökuna sína …
Anna Margrét Magnúsdóttir bar sigur úr býtum fyrir ostakökuna sína sem nú er hægt að fá á Kaffi Krús. Ljósmynd/Ísak Eldjárn
Jessica Thomasdóttir bar sigur úr býtum með þessa glæsilegu brauðtertu …
Jessica Thomasdóttir bar sigur úr býtum með þessa glæsilegu brauðtertu sem hægt er að fá á Konungskaffi. Ljósmynd/Ísak Eldjárn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert