Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og eigandi veisluþjónustunnar ZAK, gefur lesendum matarvefsins góð húsráð alla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina, baksturinn og þegar grilla skal. Nú ætlar Ísak að kenna þér að gera sósu úr litlu bitunum sem festast gjarna við pönnuna sem kallast að „deglazea“ á kokkamáli.
„Þegar þú eldar kjöt eða grænmeti á heitri pönnu sérðu oftast litla bita sem festast við pönnuna, þetta kallast „fond“ á frönsku og er stútfullt af bragði. Til að ná þessu bragði er tilvalið að „deglazea“ pönnuna eins og það heitir á kokkamáli. Þú gerir það með því að hella víni, soði, safa, sterku áfengi eða einfaldlega vatni á heita pönnuna. Þannig losnar þetta frá pönnunni og fer allt bragðið í vökvann. Næst er þetta soðið niður og getur þú gert sósu úr þeim vökva, annað hvort að bæta við rjóma, smjöri eða soðið það meira niður í gljáa. Frábær leið til að fá meira bragð úr matnum,“ segir Ísak.