Kringlan vinnur til tvennra evrópskra verðlauna fyrir Kúmen

Kringlan hlaut á dögunum tvenn evrópsk verðlaun fyrir mathöllina Kúmen …
Kringlan hlaut á dögunum tvenn evrópsk verðlaun fyrir mathöllina Kúmen sem opnaði í Kringlunni í nóvember 2022. Samsett mynd

Kringlan hlaut á dögunum tvenn evrópsk verðlaun fyrir mathöllina Kúmen sem opnaði í Kringlunni í nóvember 2022. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu eru verðlaunin Transform Awards bæði virt og eftirsótt. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í London á dögunum. Kringlan ásamt mörkunar- og upplifunarstofunni M Worldwide hlaut silfurverðlaun í flokkunum Best Brand Development Project og Best Brand Experience og bar þar sigurorð af stórum alþjóðlegum vörumerkjum m.a. Vodafone og Pepsi.

Best Brand Development Project verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi mörkun og umbreytingu húsnæðis í takti við breytta stefnu, gildi eða staðfærslu á markaði. Best Brand Experience verðlaunin eru veitt fyrir frábæra upplifun gesta á staðnum.

Mikil viðurkenning fyrir Kringluna og Kúmen

„Við erum afar stolt að hafa unnið til þessara stóru alþjóðlegu verðlauna. Þetta er mikil viðurkenning fyrir Kringluna og Kúmen,“ segir Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar.

 „Það er alveg ljóst að Reykjavík var að kalla á nýjan stað til að hittast, borða og njóta. Á sama tíma er hlutverk og starfsemi verslunarmiðstöðva um allan heim að breytast þ.e. þáttur upplifunar og skemmtunar skipar æ stærri sess. Þar hittir Kúmen hitti beint í mark. Gestafjöldi hefur aukist um þriðjung eftir breytinguna og velta á veitingastöðunum hefur aukist um allt að 100%,“ segir Inga Rut.

Ánægð með verðlaunin

„Við hjá Reitum erum mjög ánægð með þessi verðlaun. Þróun og umbreyting fasteigna er mikilvægur hlekkur í því hlutverki fasteignafélagsins að skapa umgjörð utan um samfélagið og um mannlífið í borginni. Með þessum verðlaunum er staðfest enn frekar að teymi Reita er á heimsmælikvarða í umbreytingu húsnæðis og í því að skapa frábæra upplifun gesta,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.

Breytingarnar voru unnar í náinni samvinnu Kringlunnar, Reita fasteignafélags, THG arkitekta og M Worldwide.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert