Kransakakan hennar Elizu forsetafrúar

Eliza Reid forsetafrú var hugfangin að kransakökunni sem henni var …
Eliza Reid forsetafrú var hugfangin að kransakökunni sem henni var gefin. Guðbjörg Ósk Gunnarsdóttir bakari ljóstrar hér upp uppskriftinni að kransakökunni hennar Elizu forsetafrú sem upplagt er að baka fyrir 17. júní. Samsett mynd/Sjöfn Þórðar

Í tilefni að heimsmeistaramóti ungra bakara sem haldið var á dögunum með pomp og prakt bauð Eliza Reid, forsetafrú keppendum mótsins og aðstandendum þeirra til móttöku á Bessastöðum.

Skreytt með súkkulaði og íslenska fánanum

Til að gleðja Elizu langaði íslenskum keppendurnar, Heklu Guðrúnu Þrastardóttur og Stefaníu Malen Guðmundsdóttir að færa henni þakklætisvott. Þær færðu henni tvær kökur annars vegar Ástarblómið fagra sem var sérstaklega gert fyrir forsetahjónin, Elizu og Guðna Th. Jóhannesson og hins vegar gullfallega kransaköku sem bar einfaldlega heitið Kransakakan hennar Elizu forsetafrúar. Heiðurinn af bakstrinum og skreytingunni á Guðbjörg Ósk Gunnarsdóttir, nýútskrifaður bakari. Hún skreytti kransakökuna á þjóðlegan máta með súkkulaði og íslenska fánanum. Eliza var alveg hugfangin af þessum kökum og þakklát fyrir baksturinn.

Guðbjörg deilir hér með lesendum Matarvefsins, uppskriftinni að kransakökunni sem á vel við að gera fyrir þjóðhátíðarkaffið þar sem 17. júní er fram undan næstkomandi mánudag.

Kransakakan hennar Elizu forsetafrú er gullfalleg og þjóðleg.
Kransakakan hennar Elizu forsetafrú er gullfalleg og þjóðleg. Ljósmynd/Sjöfn Þórðar

Kransakakan hennar Elizu forsetafrúar

U.þ.b. 10 hringir

  • 700 g marsipan frá Odense í bleika pakkanum
  • 42 g eggjahvítur
  • 105 g flórsykur
  • 245 g sykur

Aðferð:

  1. Byrjið að á hræra eggjahvítum, sykri og flórsykri saman
  2. Skerið síðan marsipanið í meðalstóra bita og hrærið saman við sykurinn og eggjahvíturnar. Það er bæði hægt að gera þetta í höndunum eða á lágum hraða í hrærivél með spaða eða krók. Þið viljið fá deig sem er jafnt á litinn og nokkuð teygjanlegt
  3. Skiptið deiginu jafnt í 4 hluta. Það er mikilvægt að hafa þetta eins nákvæmt og hægt er, samkvæmt uppskrift ættu þið að hafa fjórar 250 g kúlur og smá afgang.
  4. Setjið deigið í kæli í að minnsta kosti 1-2 klukkustundir en best er að hafa það í kæli yfir nótt, þá nær sykurinn aðeins að brotna niður og þá verður kakan jafnari og fallegri eftir bakstur.
  5. Til að móta kökuna þurfið þið málband, lítinn beittan hníf og blauta og hreina tusku.
  6. Borðið sem þið vinnið við þarf að vera alveg hreint og smá raki á því til að koma í veg fyrir að deigið festist of mikið við borðið.
  7. Hverja 250 g kúlu skulið rúlla í 75 cm langa pulsu.
  8. Svo er pulsan slegin niður í borðið þannig hún sé eins og þríhyrningur í laginu.
  9. Til að gera fyrsta hringinn mælið þið 12 cm langan bita, skerið á hann og mótið svo í hring. Fyrir næstu hringi bætið þið alltaf 3 cm við hvern bita.
  10. Næsti er þá 15 cm, síðan 18 cm og svo framvegis. Aðal málið hérna er að hafa hringina eins hringlaga og mögulegt er, annars verður kransakakan skökk og ójöfn.
  11. Afgangarnir af því sem var rúllað í fyrstu umferð er svo bara safnað saman, ef þið náið aftur 250 g eru þið komin með í nákvæmlega sama en ef magnið er aðeins minna er alveg hægt að nota það, aðalmálið er að reyna að hafa pulsuna svipað þykka. Þannig ef þið eruð með minna af deigi skulu þið rúlla hana svolítið styttra en 75 cm. Síðan í lokin verði þið með afganga sem þið getið rúllað í kúlu á toppinn á kökunni.
  12. Það er sterkur leikur að setja hringina í frysti í 1-2 klukkutíma áður en þeir eru bakaðir.
  13. Síðan er líka gott að nota eitthvað flatt, t.d. skurðarbretti, og ýta ofan á hringina þannig þeir séu jafn háir allan hringinn.
  14. Hitið síðan ofninn í 210°C hita og bakið hringina í 10-12 mínútur eða þar til það er komin smá litur á þá.
  15. Látið hringina kólna á flötu borði, þeir þurfa að vera orðnir alveg kaldir áður en kakan er sett saman.
  16. Það er gott að gera glassúr á meðan þeir eru að kólna.

Glassúr

  • 45 g eggjahvítur
  • 240 g flórsykur

Aðferð:

  1. Setjið eggjahvítur og flórsykur saman í skál og léttþeytið.
  2. Takið til sprautupoka til að setja glassúrinn í þegar hann er tilbúinn.

Samsetning:

  1. Þeytið smá loft í glassúrinn áður en þið setjið hann í sprautupoka.
  2. Að sprauta glassúrnum á kökuna er svolítið svipuð hreyfing og að sprauta sinnep á pylsu, jöfn hreyfing fram og til baka, þið látið glassúrinn síga hægt niður eins nálægt botninum og þið treystið ykkur til og svo upp aftur.
  3. Þið þurfið aðallega að pæla að hafa línurnar jafnar á ytri hluta kökunnar þar sem þið munu ekki sjá inn í kökuna þegar það er búið að setja hana saman.
  4. Það er bæði hægt að sprauta hringina á meðan þið staflið þeim og klára að sprauta alla hringina og leyfa glassúrnum að þorna áður en kakan er sett saman, þá þarf bara að passa að setja smá auka glassúr á milli þannig hún festist saman.
  5. Loks er það bara að skreyta eins og þið viljið hafa kransakökuna, til dæmis með súkkulaðiskrauti, íslenska fánanum, ætisblómum eða hvað eina sem ykkur dettur í hug að gera.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka