Ostakaka ársins með myntubragði

Ostakakan kom dómnefndin á óvart og myntubragðið kom bragðlaukunum á …
Ostakakan kom dómnefndin á óvart og myntubragðið kom bragðlaukunum á flug. Ljósmynd/Ísak Eldjárn

Eins og fram kom á Matarvef mbl.is var haldin Ostaköku- og brauðtertukeppni í lok maí í nýja miðbænum á Selfossi sem Kaffi Krús og Konungskaffi stóðu fyrir. Þetta var fyrsta skiptið sem kaffihúsin halda keppnina saman en undanfarin ár hefur Tómas Þóroddsson, alla jafna kallaður Tom Krús eða Tommi Krús, haldið Ostakökukeppni á vegum Kaffi Krús. Keppnin verður haldin árlega hér eftir og verður stærri og tvískipt svo það eru spennandi tímar framundan fyrir ostaköku- og brauðtertuaðdáendur.

Myntubragðið kom skemmtilega á óvart

Anna Margrét Magnúsdóttir vann keppnina um bestu ostakökuna fyrir árið 2024. Ostakakan hreif bragðlaukana hjá dómnefndinni og var samdóma álit nefndarinnar að þetta væri ostakaka ársins. Í umsögn dómnefndar um bestu brauðtertuna segir: „Klassísk ostakaka sem féll vel í kramið hjá okkur öllum í dómnefndinni. Myntubragðið kom skemmtilega á óvart.“

Uppskriftinni af vinningsostakökunni fyrir árið 2024, ostaköku Önnu Margrétar er nú ljóstrað upp hér á Matarvefnum í fyrsta skiptið og nú er lag að leika listina eftir Önnu Margréti og láta á það reyna hvort ykkur tekst jafnvel til og henni. Einnig er vert að minnast á það að vinningsostakakan er komin í sölu á Kaffi Krús svo ostukökuaðdáendur geta fjölmennt á Selfoss og prófað þessa dýrð.

Ostakakan hennar Önnu Margrétar

  • 2 pk. Maryland kexpakkar með kókos (ljósbláir)
  • 50 g hafrakex með súkkulaði
  • 120 g smjör
  • 400 g rjómaostur
  • 180 g flórsykur
  • ½ l rjómi, þeyttur
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 25 stk. Fazer Marianne súkkulaðifylltur brjóstsykur, setjið í poka og myljið með buffhamri

Aðferð:

  1. Byrjið á því að mylja kexið í matvinnsluvél, bætið síðan smjörinu út í.
  2. Klæðið stórt smelluform að innan með smjörpappír, botn sér og hliðar sér.
  3. Hellið kexblöndunni í formið og þrýstið ofan í botninn og upp með hliðunum.
  4. Kælið.
  5. Blandið saman rjómaosti og flórsykri í hrærivél.
  6. Bætið síða þeyttum rjóma, brjóstsykursmulningi og dropum út í blönduna og handhrærið saman við.
  7. Smakkið til, kannski viljið þið meiri brjóstsykur eða dropa.
  8. Setjið yfir kexbotninn og kælið.
  9. Gerið næst kremið.

Krem

  • 200 g piparmyntufyllt pralín súkkulaði
  • 1 dl rjómi

Aðferð:

  1. Setjið súkkulaði og rjóma í pott og bræðið saman við lágan hita svo úr verði súkkulaðisósa.
  2. Leyfið aðeins að þykkna, en svo þykknar sósan líka við að kólna.
  3. Kælið.
  4. Hellið síðan yfir rjómablönduna.

Fyrir skreytingu

  • Rjómarönd
  • 4-5 stk. Fazer Marianne súkkulaðifylltur brjóstsykur, setjið í poka og myljið með buffhamri.

Aðferð:

  1. Setið síðan rjómarönd á hverja sneið.
  2. Dreifið grófmuldum brjóstsykrinum yfir
  3. Síðan er það lokahnykkurinn, vefjið matarfilmu utan um mótið og setjið í frysti í að minnsta kosti 8 klukkustundir.
  4. Takið ostakökuna út um það bil 20 mínútum áður en hún er borin fram.
  5. Skreyti með ferskum berjum ef vill.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka