Grískt salat með basil tófúteningum

Hildur Ómars á heiðurinn af þessu girnilega gríska salati með …
Hildur Ómars á heiðurinn af þessu girnilega gríska salati með tófútengingum. Samsett mynd

Eitt frægasta og sumarlegasta salatið sem völ er á er grískt salat, sem margir segja að komi úr miðjarðahafsmatarkistunni. Hildur Ómarsdóttir uppskriftahöfundur, sem heldur úti uppskriftasíðunni Hildur Ómars, tók sig til og gerði vegan útgáfu af þessu dýrðlega salati með góðri útkomu.

Hér fyrir neðan er uppskrift af maríneruðum tófúteningum og hvernig Hildur notar þá í grískt salat.

„Í staðinn fyrir fetaost er ég að nota marínerað basil tófú sem gefur salatinu skemmtilega fyllingu, bragð og auka prótein. Fullkomið salat til að bera fram með grilluðu grænmeti í sumar eða með pastarétt, salatið er líka hægt að borða bara eitt og sér,“ segir Hildur og bætir við að auðvitað sé hægt að nota tófúteningana í alls konar önnur salöt að vild.

Sumarlegt og ljúffengt grískt salat.
Sumarlegt og ljúffengt grískt salat. Ljósmynd/Hildur Ómars

Grískt salat með basil tófúteningum

Basil tófú teningar

  • 1 tófúkubbur (450 g)
  • 1 lítil flaska basil organic vinegar 
  • 1 msk. oreganó krydd
  • 1 – 1 ½ tsk. jurtasalt
  • 1-2 dl ólífuolía

Aðferð:

  1. Byrjið á að skola tófúið og vefja því svo inn í eldhúspappír / viskustykki og setja farg ofan á það og leyfa því að pressast í nokkra klukkutíma eða yfir nótt inni í ísskáp.
  2. Takið svo utan af tófúinu og þerrið léttilega með þurrum klút / bréfi.
  3. Skerið tófúið í kubba og komið fyrir í skál.
  4. Veltið tófúinu upp úr organic liquid basil, oreganó og salti. Saltmagnið fer svolítið eftir smekk, útlitslega mun tófúið minna á hlutverk fetaosts í grísku salati þó bragðið muni ekki verða eins en meira magn af salti gefur aðeins meiri ostafíling.
  5. Komið tófúinu fyrir í krukku eða boxi og bætið gæða ólífuolíu útí og hristið krukkuna / boxið til að dreifa henni um kubbana.
  6. Leyfið nú tófúinu að marínerast í nokkra klukkutíma.

Grískt salat

  • ½ krukka steinlausar kalamataólífur
  • 1 box litlir íslenskir kokteiltómatar
  • ¼ rauðlaukur
  • ½ gúrka
  • 100 g furuhnetur
  • 1/3- 1/2 hluti af maríneruðu basil tófúteningunum
  • Nokkur basil lauf

Aðferð:

  1. Útbúið salatið með því að skera niður grænmetið, rista furuhneturnar og blanda saman í skál.
  2. Bætið nú um það bil 1/3 af maríneruðum basil tófú teningum út í og hrærið vel og toppið með smátt skornum basillaufum.
  3. Salatið er hægt að borða sem máltíð eitt og sér en er einnig einstaklega skemmtilegt sem sumarlegt meðlæti með nánast hverju sem er.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert