Hjónabandssælan hennar Heklu fullkomin í nesti

Hekla Guðrún Þrastardóttir er ungur og hæfileikaríkur bakari sem elskar …
Hekla Guðrún Þrastardóttir er ungur og hæfileikaríkur bakari sem elskar starf sitt. Hún deilir hér með lesendum sinni uppáhaldsuppskrift að hjónabandssælu. Ljósmynd/Aðsend

Hekla Guðrún Þrastardóttir tók þátt í heimsmeistaramóti ungra bakara á dögunum sem haldið var hér á landi ásamt Stefaníu Malen Guðmundsdóttur. Þær fengu sérverðlaun frá yfirdómara keppninnar, Þjóðverjanum Bernd Kutscher bakarameistara, sem þykir mikill heiður.

Hekla hefur ávallt haft mikinn áhuga á bakstri og veit fátt betra en að hafa heimabakað bakkelsi við höndina þegar farið er í útilegur og ferðalög um landið. Hennar uppáhalds í nesti er ekta íslensk hjónabandssæla en hana bakar hún líka á 17. júní þar sem mamma hennar sér um pönnukökurnar. Hekla ætlar að deila með lesendum Morgunblaðsins uppskriftinni að sinni uppáhalds.

Hekla er einungis 21 árs gömul og alin upp á Skagaströnd. Hún er nýútskrifuð frá Menntaskólanum í Kópavogi sem iðnstúdent og bakari og stóð sig með miklum sóma en hún hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í fagfræði bakara. Einnig lauk hún sveinsprófi með góðum árangri í lok maí. Hún ætlar að halda áfram að bæta við sig í bakarafræðunum og er á leiðinni út þar sem hún mun starfa í frægu bakaríi.

„Í ágúst ferðast ég til Vínar í Austurríki á Erasmus+ styrk, þar sem ég mun starfa í fallegu bakaríi í hjarta Vínarborgar í 16 vikur. Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum, það er svo ótrúlega mikið sem hægt er að gera og ég hlakka til að safna í reynslubankann og læra eitthvað nýtt,“ segir Hekla, sem er full tilhlökkunar.

Bakar alltaf íslenskar pönnukökur

Aðspurð segist Hekla hafa haldið hátíðlega upp á 17. júní á dögunum þar sem hefðir og siðir fjölskyldunnar voru í forgrunni. „17. júní hefur alltaf verið sérstakur dagur hjá fjölskyldu minni, sérstaklega vegna hefðarinnar sem mamma hefur haldið í heiðri. Hún bakar alltaf íslenskar pönnukökur á þessum degi, og þetta hefur orðið ómissandi hluti af hátíðahöldunum okkar. Þessi hefð tengir mig enn nánar við íslenska menningu og fjölskyldusögu. Ég hlakka til að fá uppskriftina einn daginn, en þangað til nýt ég þess að leyfa mömmu að sjá um pönnukökurnar. Hún gerir þær alltaf svo fullkomnar, og það er alltaf sérstök stund að njóta þeirra saman sem fjölskylda,“ segir Hekla.

Hjónabandssælan í miklu uppáhaldi

Nú er tími ferðalaganna runninn upp hjá Heklu og þá finnst henni ómissandi að baka kræsingar til að hafa með í nesti. „Hjónabandssæla hefur ávallt verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún var oft bökuð áður en við fjölskyldan fórum í útilegur í gamla daga og hefur oft verið á veisluborðum við alls konar tilefni. Mér finnst samspil hafrakökubotnsins og heimagerðu rabarbarasultunnar ótrúlega gott. Botninn er stökkur og mátulega sætur, en sultan bætir við frísklegu og svolítið súru bragði sem gerir kökuna einstaklega ljúffenga.

Þar sem mamma fær alveg að sjá um pönnukökurnar á 17. júní leik ég mér oft við að baka eitthvað annað. Ég elska að prófa nýjar uppskriftir og þróa mínar eigin, hvort sem það eru kökur, smákökur eða eitthvað allt annað. Bakstur hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og gefur mér tækifæri til að skapa og gleðja aðra með því sem ég baka. Allar hefðir hafa sitt upphaf og frá 17. júní 2023 hef ég bakað hjónabandssælu, það er orðin mín hefð,“ segir Hekla með bros á vör.

Hjónabandssælan hennar Heklu lítur vel út.
Hjónabandssælan hennar Heklu lítur vel út. Ljósmynd/Hekla Guðrún Þrastardóttir

Íslensk hjónabandssæla að hætti Heklu

Rabarbarasulta

  • 300 g rabarbari (frosinn eða ferskur)
  • 178 g sykur
  • 20 g sítrónusafi
  • 6 g pektín (sultuhleypir)
  • 25 g maizena

Aðferð:

  1. Setjið rabarbara, sítrónusafa og helminginn af sykrinum í pott og látið sjóða saman þar til rabarbarinn er orðinn mjúkur.
  2. Hrærið svo saman pektín og restina af sykrinum og bætið því út í pottinn.
  3. Þegar sultan hefur þykknað og fengið rétta áferð, hrærið þá maizenuna út í smá vatni og bætið henni síðan út í sultuna.
  4. Hrærið vel samtímis svo að sultan verði ekki kekkjótt.
  5. Lækkið hitann og látið malla í nokkrar mínútur þar til sultan hefur þykknað enn frekar og er orðin bakstöðug (heldur formi sínu eftir bakstur).
  6. Kælið sultuna í íláti áður en hún er notuð í hjónabandssæluna.

Íslensk hjónabandssæla

  • 250 g haframjöl
  • 250 g mjúkt smjör
  • 225 g púðursykur
  • 225 g hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 45 ml vatn
  • 2 tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum saman í stórri skál og hnoðið vel þar til deigið er samfellt.
  2. Kælið deigið í ísskáp yfir nótt til að það verði auðveldara að vinna með það.
  3. Hitið ofninn í 180°C.
  4. Takið deigið úr ísskápnum og fletjið út í þá þykkt sem ykkur þykir best.
  5. Setjið útflatt deigið í fallegt mót.
  6. Smyrjið sultunni á botninn.
  7. Setjið svo meira af deiginu á, annaðhvort myljið það ofan á sultuna eða skerið út fallegt mynstur og leggið það ofan á.
  8. Setjið síðan inn í ofn og bakið við 180°C hita, með blæstri, í 20-25 mínútur eða þar til kakan er gullinbrún og stökk.
  9. Berið fram og njótið.
Hér má sjá ferlið þegar hjónabandssælan er sett saman.
Hér má sjá ferlið þegar hjónabandssælan er sett saman. Ljósmynd/Hekla Guðrún Þrastardóttir
Sultan síðan næst.
Sultan síðan næst. Ljósmynd/Hekla Guðrún Þrastarsdóttir
Hafrastrimlarnir tilbúnir til að setja ofan á sultuna.
Hafrastrimlarnir tilbúnir til að setja ofan á sultuna. Ljósmynd/Hekla Guðrún Þrastardóttir
Þá er sælan ljúfa tilbúin í ofninn.
Þá er sælan ljúfa tilbúin í ofninn. Ljósmynd/Hekla Guðrún Þrastardóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert