Þá er komið að húsráði vikunnar úr smiðju fyrirliða íslenska kokkalandsliðsins, Ísaks Arons Jóhannssonar. Hann gefur lesendum matarvefsins góð húsráð alla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina, baksturinn og þegar grilla skal. Nú er það baksturinn sem á hug hans allan en Ísak segir að það geti skipt sköpun að nota vog til að baksturinn heppnist sem best.
„Hver kannast ekki við uppskriftir með bollum og skeiðum, að enda á því að nota bolla sem er allt of stór eða lítill. Getur verið mikið bras. Ef þú vilt fá sömu niðurstöður aftur og aftur þá mæli ég með því að nota eldhúsvog. Bestu að mínu mati er þær sem eru tvískiptar, vog sem vigtar niður í 0,1 grömm og annarri sem vigtar upp í 10.000 grömm. Að nota vog er mun áreiðanlegra og minna bras,“ segir Ísak.