Sveppasúpan hennar ömmu Sjafnar

Ljúffeng sveppasúpu úr smiðju ömmu Sjafnar.
Ljúffeng sveppasúpu úr smiðju ömmu Sjafnar. Ljósmynd/Unsplash

Amma mín heitin og nafna, Sjöfn, var einstakur kokkur og lagaði besta heimilismatinn að mínu mati. Ég var svo heppin að eignast uppskriftabókina hennar, þar sem hún ritaði allar sínar uppáhaldsuppskriftir og setti inn blaðaúrklippur með uppskriftum að ýmum kræsingum sem heilluðu hana. Ég kíki reglulega í uppskriftabókina hennar ömmu og vel rétt eða köku sem kitla bragðlaukana og vekja upp góðar minningar.

Amma lagaði ómótstæðilega góðar súpur og allar voru þær gerðar frá grunni. Hún gerði til að mynda þessa ljúffengu sveppasúpu, væntanlega er komin úr smiðju langömmu minnar, sem upplagt er að bjóða upp á í forrétt fyrir sunnudagssteikina eða hreinlega bjóða upp á hana í kvöldverð ásamt nýbökuðum brauðbollum. Hægt er að leika sér með uppskriftina og setja ykkar fingrafar á súpuna.

Sveppasúpan hennar ömmu Sjafnar

Fyrir 3-4 í forrétt/ 2 í aðalrétt

  • 250 g sveppir (nota stundum kastaníusveppi)
  • 50 g smjör
  • 1-2 tsk. ferskur sítrónusafi
  • 1 ¼ l kjötsoð
  • 1 eggjarauða
  • 2 msk rjóma (má setja meira)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Auka smjör fyrir steikingu á sveppunum

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera sveppina í bita eða sneiðar.
  2. Hitið pönnu á meðalhita og léttsteikið sveppina upp úr smjöri og sítrónusafa.
  3. Leggið til hliðar meðan súpugrunnurinn er gerður.
  4. Setjið hveitið í pott og bakið súpugrunninn upp með smjöri.
  5. Bætið við kjötsoðinu og látið sjóða í um það bil 3 - 5 mínútur.
  6. Hrærið saman eggjarauðuna og rjómann.
  7. Hellið síðan varlega út í súpuna.
  8. Kryddið súpuna til eftir smekk.
  9. Setjið að lokum sveppina út í.
  10. Vert að eiga nokkrar sveppi til að skreyta súpuna með þegar hún er borin fram. Líka hægt að skreyta með smá ferskri steinselju.
  11. Berið fram með nýbökuðum brauðbollum eða brauðteningum eftir smekk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert