Heiðrar minningu Sofiu með Sumarköku Sofiu

Sigurður Már Guðjónsson bakarameistari hjá Bernhöftsbakarí, elsta bakaríi landsins bakaði …
Sigurður Már Guðjónsson bakarameistari hjá Bernhöftsbakarí, elsta bakaríi landsins bakaði og skreytti sumarköku til heiðra minningu Sofiu Sarmite Kolesnikova. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sig­urður Már Guðjónsson bakari og kökugerðarmaður bakaði og skreytti gullfallega köku til að heiðra minningu Sofiu Sarmite Kolesnikovu, sem hefði fagnað 30 ára afmæli í dag, 27. júní, ef hún væri á lífi en hún lést fyrir rúmlega ári, þann 27. apríl. Kökuna hefur Sigurður nefnt Sumarkökuna hennar Sofiu eða Sofiukökuna. Kakan er gullfalleg massarínukaka með vanillukremi, örlitlu súkkulaði og skreytt með ferskum jarðarberjum og myntulaufum.

Fagnar 190 ára afmæli í ár

Sigurður rekur elsta bakarí landsins, Bernhöftsbakarí, sem fagnar 190 ára afmæli í ár. Hann er jafnframt formaður Lands­sam­bands bak­ara­meist­ara sem stóð fyrir heims­meist-ara­keppn­inni í bakstri á Íslandi í byrjun júní. Það var í fyrsta sinn sem slík keppni var hald­in hér. Árið 2022 var afar stórt hjá Sig­urði því þá varð hann köku­gerðarmaður árs­ins á heimsvísu. Í fyrra var hann svo fyrst­ur manna tek­inn inn í „UIBC SELECT CLUB“ sem er æðsti heiður bak­ara og köku­gerðarmanna í heim­in­um. Árið 2024 hefur verið viðburðaríkt því bak­ara­stétt­in á Íslandi fagn­ar líka 190 ára af­mæli í ár og margt á döf­inni í til­efni þessa merka áfanga.

Hefur þú ávallt haft mikla ástríðu fyrir bakstri?

„Lífið hefur síðan ég fyrst man fyrst eftir mér snúist um bakstur og bakarí. Brauð og kökur.“

Segðu okkur aðeins frá tilurð og innblæstri Sofiukökunnar.

„Ég tek af og til að mér sérverkefni fyrir fólk og íslensk kona sem búsett er í Danmörku sendi mér þessa uppskrift sem ég gerði að minni og úr varð Sumarkaka Sofiu eða Sofiukakan. Þegar ég frétti að brosmilda stúlkan Sofia, sem starfaði í afgreiðslunni hjá World Class í Sundlauginni á Seltjarnarnesi, væri látin fyrir rúmu ári varð ég ákaflega sorgmæddur. Hún var ávallt brosandi, með fallega framkomu og útgeislun hennar smitaði út frá sér, það var ekki annað hægt en að brosa á móti. Þessi stúlka mun ávallt lifa í minningunni, stúlkan með fallega brosið. Ég þekki aðstandendur Sofiu og hugur minn leitar oft til þeirra og missisins sem þau hafa gengið í gegnum. Þegar ég frétti að Sofia hefði fagnað 30 ára afmæli í dag, 27. júní, ef hún væri á lífi langaði mig að heiðra minningu hennar með þessari köku og jafnframt færa aðstandendum hennar Sumarköku Sofiu. Einnig hef ég heyrt að Sofia hafi verið einstaklega hrifin af jarðarberjakökum og hennar fyrsta starf hafi einmitt verið jarðarberjatínsla í Lettlandi þar sem hún fæddist og bjó fyrstu æviár sín,“ segir Sigurður meyr. Sumarkakan hennar Sofiu verður til í Bernhöftsbakarí í sumar frá og með morgundeginum.

Sumarkakan hennar Sofiu er gullfalleg og fagurlega skreytt með ferskum …
Sumarkakan hennar Sofiu er gullfalleg og fagurlega skreytt með ferskum jarðarberjum og myntu. Kakan á sér fyrirmynd frá Danmörku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sumarkaka Sofiu eða Sofiukakan

Massarínubotn

  • 200 g Odense XX-kransamarsipan, gróft rifið
  • 75 g af sykri
  • 200 g smjör, mjúkt og við stofuhita
  • 4 egg
  • 50 g hveiti
  • 100 g dökkt súkkulaði

Aðferð:

Þeytið marsipan og sykur vel saman.

Setjið síðan smjörið út í þar til deigið er slétt og loftkennt.

Bætið eggjunum út í einu og einu og ​​blandið að lokum hveitinu í deigið.

Setjið deigið í smurt springform sem er 24 cm þvermál, klætt með bökunarpappír.

Bakið kökuna í 175°C gráða heitum ofni í um það bil 25 mínútur.

Takið kökuna úr springforminu og dreifið dökku súkkulaðinu yfir volga kökuna.

Látið kökuna síðan kólna alveg á rist.

Ef súkkulaðið hefur ekki stífnað þegar kakan hefur kólnað skuluð þið setja hana í ísskáp í fimmtán mínútur.

Vanillukrem

  • ½ vanillustöng
  • 250 ml af mjólk
  • 3 eggjarauður
  • 15 g maíssterkja
  • 60 g af sykri
  • 100 ml þeyttur rjómi

Aðferð:

Kljúfið vanillustöngina og skafið vanillufræin úr.

Blandið vanillufræjunum saman við sykur.

Hrærið vanillusykur, eggjarauður og maíssterkju vel saman í potti.

Hellið mjólkinni út í og ​​hitið hægt að suðumarki, hrærið stöðugt í þar til hún þykknar og verður að dásamlegu þykku vanillukremi.

Hellið vanillukreminu í skál og leggið plastfilmu ofan á kremið til að hindra að það myndist skorpa og setjið svo í ísskáp þar til kremið er alveg kalt.

Samsetning kökunnar

  • 400 g jarðarber
  • 1 handfylli af ferskri myntu

Aðferð:

  1. Þeytið rjómann og hrærið vanillukreminu saman við fyrstu tvær matskeiðar af þeyttum rjóma og blandið svo restinni af þeyttum rjómanum saman við þar til það verður ljúffengt og loftmikið þykkt rjómakrem.
  2. Smyrjið vanillukreminu á massarínubotninn. Skreytið með þéttu lagi af jarðarberjum og litlum myntulaufum.

Ábendingar um kökuna

  1. Kakan þolir að standa í kæli í tvo sólarhringa.
  2. Massarínubotninn má baka með 1-2 daga fyrirvara og má frysta. Geymið hann annars í plasti og við stofuhita.
  3. Einnig er hægt að gera rjómakremið daginn áður en það er borið fram.
  4. Hægt er að setja kökuna saman nokkrum tímum áður en hún er borin fram og ef þú gerir það skaltu geyma hana í ísskápnum.
  5. Jarðarberjatertuna má geyma fram eftir degi en best er að bera hana fram þegar hún er sett saman, í fyrsta lagi nokkrum tímum áður en hún er borin fram – eða rétt áður.
Jarðarberin og mynta passa ákaflega vel saman.
Jarðarberin og mynta passa ákaflega vel saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert