Pétur Kolka er með heitasta sumarkokteilinn í ár

Pétur Kolka með heitasta sumarkokteilinn í ár á OTO sem …
Pétur Kolka með heitasta sumarkokteilinn í ár á OTO sem ber heitið Geisha. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg

Pétur Kolka yfirbarþjónn veitingastaðarins OTO á Hverfisgötu er kominn með sumarkokteilinn í ár. Hann sviptir hér hulunni af leyndardómsfullu uppskriftinni á þessum dýrðlega kokteil sem laðar að með fegurð sinni, áferð og bragði.

Pétur bjó til og þróaði drykkjarseðil staðarins, en OTO hlaut Michelin Guide viðurkenningu nú á dögunum og var valinn besti veitingastaðurinn á Íslandi á BCA verðlaununum fyrr á þessu ári sem er mikill heiður fyrir staðinn og teymið sem að honum stendur.

Mér líður mjög vel hérna

Segðu okkur aðeins frá tilurð þess að þú tókst hlutverkinu að vera yfirbarþjónn á veitingastaðnum OTO.

„Fyrrum samstarfsmaður minn seldi mér starfið. Hann sagði mér frá hugmyndinni að staðnum og hvað Sigurður Laufdal yfirkokkur og einn eiganda OTO, ávallt kallaður Siggi Lauf, og kokkarnir væru að gera. Ég hafði mikla trú á hugmyndinni og leist vel á að taka þetta verkefni að mér. Ég fann fljótlega að það er frábært fólk að vinna hér og starfsumhverfið gott. Mér líður mjög vel hérna,“ segir Pétur með bros á vör.

Hverjar eru helstu áherslur þínar sem barþjónn?

„Ég tel að þekking, vandvirkni og forvitni sé það sem geri barþjón að frábærum barþjóni. Þekking á öllum helstu spírum og kokteilum og að geta svarað öllum helstu spurningum gesta. Munurinn á góðum og frábærum bar liggur þó í smáatriðunum að mínu mati. Það getur hver sem er blandað mismunandi hráefnum í glas og gert góðan drykk. Einfaldleikinn er oftast bestur. Barþjónar, þar á meðal ég, eiga það til að vilja finna upp hjólið þegar kemur að drykkjum. En það er nú þegar búið að finna það upp. Spurningin snýst núna um hvernig við getum nýtt það og þróað okkur áfram.“

Pétur segist sækja innblástur sinn í það sem kokkarnir eru …
Pétur segist sækja innblástur sinn í það sem kokkarnir eru að gera og hráefnin sem þeir nota inni í eldhúsi. mbl.is/Árni Sæberg

Kokteilarnir eru byggðir á japönskum og ítölskum hráefnum og spírum

Hver er sérstaða drykkjanna sem framreiddir eru á OTO?

„Kokteilarnir okkar eru byggðir á japönskum og ítölskum hráefnum og spírum í takt við þema matargerðarinnar.  Við erum sífellt að prófa okkur áfram og ríkir mikil sköpunargleði hjá okkur hér á OTO.“

Blandan er síuð gegnum sigti í viðeigandi glas á fæti.
Blandan er síuð gegnum sigti í viðeigandi glas á fæti. mbl.is/Árni Sæberg

Freyðandi, ferskur og sítruskenndur

Hver verður aðal sumarkokteillinn í ár hjá ykkur?

„Sumarkokteillinn hjá okkur heitir Geisha og er freyðandi, ferskur og sítruskenndur. Tilvalinn sem léttur og bragðgóður fordrykkur til að byrja kvöldið. Geisha er lauslega byggður á klassíska kokteilnum French 75 og er innblásinn af japönskum hráefnum. Drykkurinn inniheldur plómur, sítrónu, yuzu, gin og freyðandi sake, toppaður með plómu-yuzu lofti fyrir áferð og bragð,“ segir Pétur að lokum og sviptir hér hulunni af uppskriftinni ef ykkur lesendur góðir langar að prófa heima. Annars er bara að mæta á OTO og prófa.

Geisha er sumarlegur og fallegur kokteill sem laðar að.
Geisha er sumarlegur og fallegur kokteill sem laðar að. mbl.is/Árni Sæberg

Heitasti sumarkokteillinn í ár - Geisha

Geisha 

Fyrir 1

  • 30 ml plómu síróp (sjá uppskrift hér fyrir neðan)
  • 15 ml sítrónusafi
  • 7 ml yuzu safi
  • 45 ml gin
  • 30 ml freyðandi sake
  • Toppað með plómu-yuzu lofti (sjá uppskrift hér fyrir neðan)
  • Heimagert plómusnakk fyrir skraut
  • Klaki eftir smekk og þörfum

Aðferð:          

  1. Byrjið á því að blanda saman sítrónusafa, yuzu safa, plómu sírópi og gini í kokteilhristara og hristið með klaka.
  2. Veljið síðan viðeigandi glas og síið blönduna í gegnum kokteilsíu og sigtið í glasið.
  3. Bætið við freyðandi sake.
  4. Toppið upp með plómu-yuzu lofti. Einnig hægt að hrista með eggjahvítu fyrir froðu í stað plómu-yuzu lofts ef vill.
  5. Skreytið með heimagerðu plómusnakki og berið fram.

Plómu síróp

  • 500 g plómusafi
  • 500 g sykur

Aðferð:          

  1. Skerið kjarnann úr plómunum og djúsið þær í djúsvél eða blandara.
  2. Síið allt aldinkjöt úr safanum. (Aldinkjötið þurrkað til að gera plómusnakk)
  3. Blandið sykri við og hrærið þar til sykurinn leysist upp.
  4. Hægt að setja í lokaðan dall og hrista saman. Einnig hægt að sjóða í potti en þá er hætt  við að plóman verði ekki jafn fersk.

Plómu-yuzu loft

  • 2 g soy lecithin
  • 30 ml yuzu safi
  • 90 ml plómusíróp
  • 240 ml vatn

Aðferð:

  1. Blandið öllum saman í dall og þeytið upp með handþeytara svo það freyði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert