Þá er komið að húsráði vikunnar úr smiðju fyrirliða íslenska kokkalandsliðsins, Ísaks Arons Jóhannssonar. Hann gefur lesendum matarvefsins góð húsráð alla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina, baksturinn og þegar grilla skal. Að þessu sinni ætlar hann að gefa góð ráð þegar grilla skal grænmeti sem hann segir að sé ekki síðar en að grilla kjöt.
„Að grilla grænmeti getur verið alveg jafnt gott og að grilla kjöt. Hægt er að grilla nánast hvað grænmeti sem er t.d. toppkál, brokkólíni, seljurót og ekki skaðar það að krydda það með Grænmetisblöndunni frá Mabrúkka. Þegar grænmeti er grillað þarf að dressa það vel upp úr olíu til að leiða hitann og fá jafna brúnun, sumt grænmeti líkt og seljurótin er gott að baka áður en því er skellt á grillið til að stytta eldunartímann á grillinu. Best er auðvitað að prufa sig áfram og þora prufa,“ segir Ísak með bros á vör.