Veitingastaðurinn Pizza Popolare í Pósthúsi Mathöll í Pósthússtræti í Reykjavík er á meðal 50 bestu pitsustaða í Evrópu, að mati tímaritsins 50 Top Pizza (50 Top Pizza Europe 2024 – Excellent Pizzerias og 50 Top Pizza Europa 2024 – Guida completa). „Þetta er risastórt fyrir okkur í lítilli mathöll í Reykjavík á litla Íslandi, mikil viðurkenning og góð meðmæli,“ segir Guðmundur G. Pétursson, annar eigandi staðarins.
Guðmundur hefur starfað í hótel- og veitingageiranum í rúmlega 20 ár. „Pitsa er síðasta máltíðin mín,“ útskýrir hann. Þegar opnun Pósthúss Mathallar hafi verið í undirbúningi hafi þeir frændur, hann og Aron Freyr Lárusson, verið sannfærðir um að þeir gætu verið þar með þennan sérstaka pitsustað. Staðsetningin gæti ekki verið betri og fagmenn stæðu að rekstri mathallarinnar. „Við höfðum lengi gengið með hugmyndina í maganum og stukkum á tækifærið.“
Frændurnir hófu reksturinn í nóvember 2022. „Þegar við byrjuðum með Pizza Popolare lögðum við upp með að vera með bestu pitsur á landinu og þó lengra væri leitað,“ segir Guðmundur um ítölsku contemporanea-pitsurnar. Þeir hafi keypt bestu mögulegu tæki og tól, þar á meðal sérstakan ofn frá Ítalíu. „Steinninn úr honum er úr Vesúvíus-eldfjallinu og ofninn var sá eini sinnar tegundar hérlendis þar til við keyptum annan, sem er reyndar tvöfalt stærri, fyrir Pizza Popolare í Mathöllinni á Glerártorgi á Akureyri,“ segir Guðmundur, en frændurnir hafa tekið við rekstrinum nyrðra og gera ráð fyrir að opna mathöllina þar síðsumars. „Við notum líka aðeins hágæðahráefni,“ leggur hann áherslu á.
„Það blundaði alltaf í okkur að fá alþjóðlega viðurkenningu, en hún kom fyrr en við áttum von á,“ viðurkennir Guðmundur. 50 Top Pizza sé virtasta tímaritið í heimi, sem meti pitsustaði, og megi líkja því við Michelin, sem veiti öðrum veitingastöðum stjörnur og meðmæli.
Ítalski pitsugerðarmaðurinn Ismail Mesnaoui hefur lagt sitt af mörkum. Hann fylgdist með undirbúningnum á pitsaspjallþræði á netinu, hreifst af metnaðinum og úr varð að hann slóst í hópinn. „Hann var strax mjög áhugasamur um verkefnið, kom til okkar í apríl í fyrra og hefur verið við stjórnvölinn síðan.“
Bestu pitsustaðir í heimi eru valdir eftir kúnstarinnar reglum. 50 Topp Pizza velur 50 bestu staðina eftir svæðum, þ.e.a.s. í Evrópu, Asíu, Rómönsku-Ameríku og Bandaríkjunum. Auk þess eru sérstök verðlaun veitt árlega á hverju svæði.
Pizza popolare er fyrsti íslenski pitsustaðurinn sem 50 Top Pizza mælir með hérlendis. Guðmundur áréttar að þetta sé mikil viðurkenning og gefi þeim byr undir báða vængi. „Við höldum áfram að vanda okkur og hugsanlega kemur að því að við opnum sjálfstæðan stað.“