Vinsæll núðlustaður í stað Kaffitárs opnar í Bankastræti.
„Þetta verður mjög svipaður staður. Við viljum gera þetta einfalt og gera það vel,“ segir Erna Pétursdóttir, annar eigandi veitingastaðarins Ramen Momo sem hefur verið rekinn í litlu húsnæði við Tryggvagötu í tíu ár. Staðurinn hefur notið mikilla vinsælda og nú hyggjast Erna og Kunsang, eiginmaður hennar og meðeigandi, færa út kvíarnar og opna nýjan stað. Sá verður í Bankastræti þar sem Kaffitár var um langt árabil.
Erna segir að rekstrarleyfi fáist vonandi innan tveggja vikna og þá sé þeim ekkert að vanbúnaði. Langur aðdragandi er að opnun nýja staðarins.
„Á staðnum í Tryggvagötu erum við bara með pláss fyrir átta manns. Það hefur því verið erfitt fyrir hópa að koma og fólk sem nennir ekki að sitja í barstól þegar það borðar. Á nýja staðnum er meira pláss fyrir fólk til að njóta matarins,“ segir Erna. Litli staðurinn í Tryggvagötu verður áfram í fullum rekstri eftir að sá nýi verður opnaður.
Erna og Kunsang fengu húsnæðið í Bankastræti afhent í október á síðasta ári og hafa síðan þá unnið að undirbúningi. Ekki er um neina áhættufjárfestingu að ræða hjá þeim hjónum og þau hafa stigið varlega til jarðar. „Við ákváðum að taka ekki lán heldur höfum safnað fyrir opnun staðarins. Við erum líka að gera allt sjálf, mála og slíkt, samhliða því að reka hinn staðinn. Það hefur tekið sinn tíma.“