Margrét setur smá skvettu af tequila út í guacamole-ið sitt 

Gleðigjafinn Margrét Erla Maack á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu …
Gleðigjafinn Margrét Erla Maack á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Lífs­k­únstner­inn og gleðigjaf­inn Mar­grét Erla Maack býður upp á vikumat­seðil­inn að þessu sinni. Hann er svo sann­ar­lega í henn­ar anda og hún þorir að fara sín­ar eig­in leiðir í mat­ar­gerðinni eins og í öllu öðru sem hún tek­ur sér fyr­ir hend­ur. Mar­grét er til að mynda nýr skemmt­ana­stjóri Hinseg­in skemmti­staðar­ins Kiki á Klapp­ar­stíg sem opnaði á ný á dög­un­um. Hún fer um víðan völl að gleðja fólk og er líka með sund­ball­et í Vest­ur­bæj­ar­laug­inni svo fátt sé nefnt. Það er alla vega eng­in logn­molla kring­um Mar­gréti.

Kiki datt í kjöltu mína í miðju leik­skóla­fríi

„Þetta sum­ar­frí sem átti að vera sum­ar­frí fór for­görðum þegar skemmti­staður­inn Kiki datt í kjöltu mína, og það í miðju leik­skóla­fríi. Vik­urn­ar mín­ar eru tví­skipt­ar, ég er ann­ars veg­ar með dótt­ur mína fal­legu og svo ekki, og þá fæ ég út­rás í að borða það sem hún vill helst ekki borða, eða er of sterkt,“ Mar­grét og hlær.

„Mat­ur sem ég sæki í á sumr­in er fersk­ur, lit­rík­ur og létt­ur, ég er mik­il sal­at-kona og svo er ég al­veg sjúk í alls kon­ar mat, sus­hi, carpaccio og tart­ar er í miklu upp­á­haldi. Oft geri ég sal­at­dress­ing­ar og borða svo sal­at í há­deg­is­mat þrjá daga í röð. Sömu­leiðis er ekk­ert leiðin­legra en að elda fyr­ir eina, svo ef ég skelli í til dæm­is ind­versk­an þá geri ég al­veg fullt og frysti svo. Mér finnst ég alltaf vera á hlaup­um svo það að fá tíma til að elda er al­gjör lúx­us og er mín hug­leiðsla. Ég sýni fólki að ég elski það með mat og býst við því sama,“ seg­ir Mar­grét ein­læg á svip.

„Í þess­ari viku er ég með dótt­ur mína fyrri hluta vik­unn­ar, fer í nafna­veislu á miðviku­degi og svo tek­ur við helg­in með öll­um sín­um æv­in­týr­um en ég er búin að gera vikumat­seðil­inn og vona að hann gangi eft­ir.“ 

Mánu­dag­ur - Sum­ar­leg­ir ham­borg­ar­ar 

„Þá daga sem ég er með dótt­ur mína dett ég mikið í rétti sem er auðvelt að full­orðna upp fyr­ir mig. Við erum mikl­ar ham­borg­ara­kon­ur, hún fær sér ennþá ber­an í brauði með tóm­atsósu en ég er meira í því að dúlla minn upp. Hér er til dæm­is mjög góð hug­mynd að slík­um. Pikklaður rauðlauk­ur er góður á allt næst­um því og því svo gott að hafa hann í ís­skápn­um fyr­ir tacos, salöt og pitsur.“

Þriðju­dag­ur – Sítr­ónup­asta að hætti Sophiu Lor­en 

„Ég og amma mín og nafna, Mar­grét Erla, eig­um það sam­eig­in­legt að finn­ast sítr­ón­ur gera allt betra. Sítr­ón­ur eru sól­skin og þetta pasta hér er æðis­lega sum­ar­legt. Ég mæli með að búa til par­mes­an-kurl með því að hita par­mes­an með smjöri og ólífu­olíu, láta bráðna og svo þorna og kólna og mylja síðan út á fyr­ir extra-par­mes­an upp­lif­un.“

Miðviku­dag­ur – Tún­fisksal­atið besta

„Á miðviku­dag­inn er litla frænka mín að fá nafnið sitt og ætli mamma skelli ekki í tún­fisksal­atið sitt þá. Það er ein­hver leyniupp­skrift sem eng­inn má fá en hér er tún­fisksal­at fyr­ir þau sem vilja vera með í tún­fisksal­at-gleðinni.“ 

Fimmtu­dag­ur – Grænt sal­at með ristuðum hnet­um

„Nú er Gússa mín far­in til föður síns og þá verður al­deil­is smellt í sal­at-dress­ingu sem verður étin næstu daga í há­deg­inu. Þessi ses­am­dress­ing er bæði góð á þessu sal­ati, sem ídýfa og líka á kjúk­linga­sam­loku. Sal­at í mig og svo bein­ustu leið á karókí á Kiki.“

Föstu­dag­ur – Guaca­mole

„Hér er ég að vona mjög mikið að það verði gott veður. Þá er ekk­ert betra en bjór og nachos. Nachos í kvöld­mat er hápunkt­ur. Ég má gera það sem ég vil og er líka frá­bær leið til að nýta af­ganga. Og þá er lyk­il­atriði að búa til gott guaca­mole. Ef það á að vera extra full­orðins mæli ég með að skvetta smá tequila út í guaca­mole-ið.“

Laug­ar­dag­ur – Lúx­us grill­spjót með chimichurri

„Í dag er ég að kenna í millj­ón gæsapar­tí­um og fer svo að DJa í brúðkaupi. Hér þarf ég eitt­hvað gott til að jarðtengja mig eft­ir dag­inn og best er að borða gott kjöt með chimichurri í al­gjörri þögn.

Sunnu­dag­ur – Tikka Masala kjúk­ling­ur

„Ég er þreytt í dag og opna fryst­inn og hvað sé ég? Fortíðar-Mar­grét hef­ur gert Tikka Masala og sett í fryst­inn fyr­ir nokkr­um vik­um. Þessi upp­skrift er nokkuð ná­lægt því sem ég geri, en mín upp­skrift tek­ur að minnsta kosti sól­ar­hring í marín­er­ingu og ef þið hafið tíma mæli ég með því.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert