„Ég er frekar hamfarakokkur en hitt“

Bjarki Sigurjónsson og Ásthildur Hannesdóttir.
Bjarki Sigurjónsson og Ásthildur Hannesdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjöl­miðlakon­unni og verk­efna­stjór­an­um Ásthildi Hann­es­dótt­ur er margt til lista lagt. Hún elsk­ar að baka og töfra fram fal­leg­ar kök­ur og sæt­meti en seg­ir mat­reiðslu hins veg­ar ekki vera henn­ar sterk­asta hlið. 

„Ég er frek­ar ham­fara­kokk­ur en hitt og mér finnst rosa­lega næs að geta keypt eitt­hvað sem er til­búið. Ég væri helst til í að þurfa bara að fylla á tank­inn einu sinni í viku – ef ég gæti tekið eina pillu sem myndi gera mig sadda í viku þá myndi ég gera það, ég nýt þess ekki endi­lega að borða og nenni því stund­um ekki. Ég borða eig­in­lega bara til að lifa.

Kannski er ég bara með frek­ar barna­lega bragðlauka ennþá. Ég vil ekk­ert fá ein­hverja rauðvínssósu eða eitt­hvað vesen, ég er sátt bara með kokteilsósu,“ seg­ir Ásthild­ur og hlær. 

Mánu­dag­ur - Steikt­ur fisk­ur

„Sem sjó­manns­frú og nán­ast með ótak­markaðan aðgang að fisk­meti þá ætti ég að vera dug­legri við að fikra mig áfram í prófa að elda nýja fisk­rétti. En geri ég það? Nei. Steikt­ur fisk­ur í raspi, bor­inn fram með soðnum kart­öfl­um, smjöri, niður­skorn­um gúrk­um og remúlaði stend­ur alltaf fyr­ir sínu og er hinn full­komni mánu­dags­mat­ur ef þú spyrð mig.“

Þriðju­dag­ur - Dömpling­ar

„Ég elska „dumplings“ og kaupi oft frosna, til­búna dömplinga sem þarf aðeins að henda í eld­fast­mót og inn í ofn í 15-20 mín­út­ur. Þeir eru ofsa­lega bragðgóðir og það skemm­ir ekki fyr­ir að geta flýtt fyr­ir elda­mennsk­unni endr­um og eins með því að kaupa þá til­búna. Dömpling­ar born­ir fram með krydd­blönduðu kúskúsi og hvít­laukssósu er eitt­hvað sem við erum mikið að vinna með heima hjá mér.“

Miðviku­dag­ur - Kjúk­linga­sal­at

„Nokkr­ir fjöl­skyldumeðlim­ir mín­ir hafa mært mig mikið í gegn­um tíðina fyr­ir að gera besta kjúk­linga­sal­at sem smakk­ast hef­ur. Ég get varla eignað mér hrósið því inn­blást­ur af upp­skrift­inni fékk ég að láni frá ein­hverj­um öðrum en hef leikið mér mikið með að henda hinum og þess­um hrá­efn­um við. Til þess að gera sal­atið ör­lítið mat­ar­meira þá þykir mér ótrú­lega sniðugt að henda pasta með út í það.“

Fimmtu­dag­ur - Píta

„Maður­inn minn skamm­ar mig oft fyr­ir það hversu illa ég nýti mat­inn frá kvöld­inu áður. Ég held að hann verður ánægður með mig núna. Ef af­gang­ur verður af kjúk­linga­sal­at­inu sem var í mat­inn deg­in­um áður er til­valið að nýta það í pít­urn­ar - ekk­ert smá sniðugt. All­ir fjöl­skyldumeðlim­ir elska pít­ur, ung­ir sem aldn­ir, en við elsk­um ekk­ert meira en skinkupít­ur því hakkið er ekk­ert alltaf voða vin­sælt. Humarpít­ur hef ég reynd­ar aldrei smakkað en það er upp­skrift sem mér finnst hljóma mjög vel. Mér skilst reynd­ar að hum­ar sé nán­ast ófá­an­leg­ur þessi dægrin og humarstofn­inn nán­ast í út­rým­ing­ar­hættu. Kannski ætti ég því bara að skamm­ast mín fyr­ir það að hafa þenn­an rétt á mat­seðlin­um.“ 

Föstu­dag­ur - Pip­arosta lasagne

„Erna vin­kona mín kynnti mér fyr­ir þess­ari snilld að setja pip­ar- og papriku­ostasósu út í lasagne í stað hefðbund­inn­ar lasagne-sósu. Bragðlauk­arn­ir mín­ir komust á diskó­tek þegar ég smakkaði þenn­an rétt hjá henni. Það verða all­ir að prófa þessa því­líku föstu­dags snilld.“

Laug­ar­dag­ur - Pítsa

„Þrátt fyr­ir að Dom­in­os í Norðlinga­holti eigi það til að græða á mér einu sinni í mánuði þá slá pítsurn­ar þar þeim heima­bökuðu ekki við. Góð heima­til­bú­in pítsa með ít­ölsku ívafi er bragðið af góðum laug­ar­degi.“

Sunnu­dag­ur - Grillaðar svínakótilett­ur

„Grillaðar hun­angs­gljáðar svínakótilett­ur með kart­öflu­sal­ati og pip­arsósu er sunnu­dags­steik að mínu skapi. Dótt­ir mín biður iðulega um bleikt kjöt í mat­inn og borðar aldrei eins vel og þegar bleiku kjöti er hent á grillið.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert