Þá er komið að húsráði vikunnar úr smiðju fyrirliða íslenska kokkalandsliðsins, Ísaks Arons Jóhannssonar.
Hann gefur lesendum matarvefsins góð húsráð flestalla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina, baksturinn og þegar grilla skal. Að þessu sinni gefur hann leggur hann til að þú leikir þér með nýveiddan fisk og prófir að bera hann fram með nýstárlegum hætti.
Nú er mikið um að landsmenn stundi veiðar og því er þetta afar gott ráð, að breyta til með nýveiddan fisk og koma bragðlaukunum á flug.
„Algengt er að grilla fisk sem maður hefur veidd en það er margt annað hægt að gera með fiskinn. Úr lax og bleikju er til að mynda hægt að verka fiskinn og gera ceviche, tartar eða jafnvel sashimi.
Þegar sashimi er gert þá er flakið snyrt vel og sett inn í frysti yfir nótt. Daginn eftir er flakið látið þiðna og skorið í þunnar sneiðar, síðan er upplagt að bera það fram með sojasósu og jafnvel fersku íslensku wasabi.
Tartar er einnig skemmtilegt að henda í en þá er flakið skorið í smá teninga og smakkað til með salti, sítrónuberki, graslauk, ólífuolíu og kapers. Hreint sælgæti allt saman.“