Uppskerutíminn á ökrum við Flúðir er hafinn og frumkvöðlar í ræktun koma með nýjar og skapandi hugmyndir. Gaman er að sjá nýtt og ferskt grænmeti streyma inn í verslanir og nóg er úrvalið.
„Mikilvægt er að sem allra stystur tími líði frá því að grænmetið er tekið úr görðum og gróðurhúsum uns það kemst til neytenda og í verslanir. Magnið þarf því að vera í samræmi við þörf hvers dags og slíkt næst betur en ella þegar við erum í nánu sambandi við verslanir; umhverfi sem er hvikult og kröfurnar miklar,“ segir Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir sem á og rekur Sólskins grænmeti ehf. á Flúðum.
Krónan og Sólskins grænmeti eru nú komin í bein viðskipti. Halla sagði skilið við dreifingu grænmetis í gegnum Sölufélag garðyrkjumanna og selur sínar afurðir sjálf. Með því býður hún birginn áratugalöngu skipulagi og byggir upp dreifikerfi sem fellur að hennar rekstri og uppskeru. Og nú er allt að gerast í garðyrkjubæjum landsins; uppskerutíminn er hafinn til dæmis á ökrum þar sem ræktað er kál. Afurðirnar streyma á markaðinn eftir gróskumikið sumar, þótt í kaldara lagi hafi verið.
Árið 2021 festi Halla Sif, þá rétt að verða þrítug, kaup á rótgróinni stöð á Flúðum, Gróðri á Hverabakka, þar sem ræktað hefur verið grænmeti í yfir 80 ár. Á síðasta ári færði hún svo enn út kvíarnar og keypti garðyrkjustöðina Mela, einnig á Flúðum. Sú stöð hefur verið í rekstri frá því um 1980. Hluti af starfseminni á Melum er Litla bændabúðin þar sem selt er grænmeti beint frá stöðinni sem og ýmsar afurðir bænda í uppsveitum Árnessýslu.
Í kjölfar kaupa á garðyrkjustöðvunum tveimur sameinaði Halla Sif rekstur þeirra undir merki Sólskins grænmetis ehf. Auk ræktunar gúrkna og tómata er einnig stunduð útiræktun á selleríi og blómkáli. Og allt fer þetta í Krónuna. „Til framtíðar litið stefnum við að því að breikka og auka vöruúrvalið til að auka aðgengi að íslensku grænmeti allt árið um kring,“ segir Halla Sif.
„Við fylgjumst náið með nýjungum og leitumst stöðugt við að uppfylla fjölbreyttar þarfir viðskiptavina okkar,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar. Þar var starfsfólk nú fyrir helgina í Lindum í Kópavogi að taka á móti afurðum Sólskins, sem eru sérmerktar og vel haldið fram í söluborðum.
„Oft koma nýjar og skapandi hugmyndir frá frumkvöðlum sem við innleiðum ef slíkt samræmist okkar áherslum. Þetta getur snúið að skilvirkum rekstri, sjálfbærni eða upplifun viðskiptavina. Við erum einnig meðvituð um að það skiptir máli að stór aðili á markaði líkt og Krónan sé opinn fyrir samstarfi við smærri aðila. Takist vel til gæti samstarfið dregið úr innkaupum á erlendu grænmeti og stuðlað að auknu framboði á íslensku grænmeti yfir lengri tíma,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir.