Apabrauðið sem litla fólkið elskar

Ömmubörnin hennar Önnu Bjarkar Eðvarðsdóttir elska apabrauðið. Hér eru þau …
Ömmubörnin hennar Önnu Bjarkar Eðvarðsdóttir elska apabrauðið. Hér eru þau Andri Hrafnar, Guðjón Freyr, Eydís Líf og Eva Rut. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir

Hér er á ferðinni apabrauð sem er mjög skemmtilegt að búa til með litla fólkinu og hella sér svo yfir það og borða nýbakað og volgt. Snilldin við þetta apabrauð er að það er búið til úr tilbúnu pítsadeigi, svo það minnkar fyrirhöfnina töluvert. Það er í raun bara þetta skemmtilega eftir. Heiðurinn af þessari uppskrift á Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins, en hún elskar fátt meira en að gera kræsingar með sínu besta fólki og þá sérstaklega barnabörnunum.

„Það þurfti svo sannarlega ekki að reka á eftir brauðbitunum ofan í litla fólkið, ekki heldur okkur eldra liðinu. Sumir borðuðu brauðið með sínu sniði, eins og Eva Rut litla, tveggja ára, sem vildi endilega hafa tómatsósu með sínum bitum. Þau eldri, Andri Hrafnar níu ára, Guðjón Freyr sjö ára og Eydís Líf fjögurra ára, slepptu því nú alveg,“ segir Anna Björk og hlær. Fyrir áhugasama þá heldur Anna Björk úti köku- og matarbloggi hér. 

Apabrauðið er góð skemmtun að baka með yngri kynslóðinni.
Apabrauðið er góð skemmtun að baka með yngri kynslóðinni. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir

Apabrauð

Fyrir 4-5

Kanilsykur

  • 1/4 bolli púðursykur
  • 1/4 bolli hrásykur
  • 1 1/2 tsk. kanill
  • 1/8 tsk. múskat
  • 6 msk. smjör, brætt + meira til að smyrja formið með

Aðferð:

  1. Öllu hráefninu er blandað saman í flatbotna skál.

Brauð

  • ½ kg tilbúið pítsadeig frá Shake&pizza eða annað pítsadeig að eigin vali (tæplega tvö deig)

Aðferð:

  1. Takið pítsadeigið úr ísskápnum 1-2 klukkustundum, áður en á að baka úr því. 
  2. Takið til 20 cm form með háum köntum og smyrjið vel að innan með smjöri. Ef þið eigið ekki þannig form geti þið notað spring-form, en þá þurfið þið að vera með álpappír undir forminu á meðan bakað er, svo sykurinn leki ekki í botninn á ofninum og brenni þar. 
  3. Vinnið deigin hvort í sínu lagi. 
  4. Byrjið á því að dusta mjölið af deiginu eins mikið og þið getið, sem er í botninum á formunum sem það kemur í. 
  5. Togið síðan deigin út í 15 cm ferning og klippið með hreinum skærum í tvennt.
  6. Klippið síðan hvern helming í 3 hluta, þannig að þið séuð með 6 lengjur. 
  7. Klippið síðan hverja lengju í 6 jafna bita, þá eigið þið að vera komin með 36 bita af deigi.
  8. Veltið síðan hverjum bita upp úr brædda smjörinu og síðan upp úr kanilsykrinum. 
  9. Raðið bitunum þétt í formið. 
  10. Setjið plastfilmu yfir formið og látið brauðið hefast í 1 ½ - 2 klukkustund á volgum stað.
  11. Setjið síðan inn í ofn og bakið við 180°C hita í um það bil 25 mínútur eða þar til brauðið er ljósgyllt og fullbakað. 
  12. Takið úr ofninum og látið kólna i 5 mínútur, ekki lengur.
  13. Hvolfið síðan brauðinu á disk og látið kólna í um það bil 10 mínútur.
  14. Loks látið þið glassúrinn leka í röndum yfir brauðið (sjá uppskrift fyrir neðan). 
  15. Síðan er bara að hella sér yfir apabrauðið og borða það, meðan það er volgt og njóta með sínum bestu.

Glassúr

  • 1/3 bolli flórsykur
  • 2 tsk. mjólk

Aðferð:

  1. Hrærið saman flórsykri og mjólk í lítilli skál.
Verið að njóta í sveitinni hjá ömmu.
Verið að njóta í sveitinni hjá ömmu. Ljósmynd/Anna Björk Eðvarðsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert