Marsipan- og jarðarberjatertan hans Finns

Marsipan- og jarðarberjatertan hans Finns lítur vel út.
Marsipan- og jarðarberjatertan hans Finns lítur vel út. mbl.is/Eyþór Árnason

Finnur Prigge bakari sem er nú á leið til Þýskalands, til Berlínar að taka þátt í Norðurlandamóti bakara ásamt liðsfélögum sínum, elskar að gleðja sína nánustu með ljúffengum og fallegum kræsingum. Það er ósjaldan sem hann töfrar fram dýrindiskökur og ber fram þegar hann langar til að gera vel við sína. Þessa köku gerði hann einn góðan sumardag og má segja að þessi fína marsipan- og jarðarberjaterta svipi mikið til Sumarköku Sofiu sem Sigurður Már Guðjónsson bakarameistari hjá Bernhöftsbakarí gerði í sumar til minningar um Sofiu heitinna. Þessi er þó aðeins einfaldari í gerð og færri hráefni sem fara í baksturinn.

Finnur mælir með rífa niður smá límónubörk yfir tertuna, það …
Finnur mælir með rífa niður smá límónubörk yfir tertuna, það gefi henni skemmtilegan beiskan keim. mbl.is/Eyþór Árnason

Þarf að vanda til verka við baksturinn 

„Hún er tiltölulega einföld og samanstendur af massarínubotni, rjóma og jarðarberjum en massarínubotninn á rætur sínar að rekja til Danmerkur. Hann hefur lengi vel verið mikið notaður þar í landi sem og hérlendis, til dæmis í marsipanstykki, ávaxtasnittur svo fátt sé nefnt. Einnig er botninn notaður sem grunnur í flóknari tertugerð fyrir allskonar tilefni. Botninn er þéttur og bragðmikill. Uppskriftin er, eins og áður sagði, einföld en það þarf að vanda til verka meðan á bakstrinum stendur.  Til dæmis þarf að passa að marsipanið og sykurinn sé svipað og sandur áður en smjörinu er bætt við því annars er hætta á að það verði marsipankekkir í deiginu. Einnig þarf að passa að setja eggin ekki of hratt út í deigið því þá er hætta á að deigið skilji sig,“ segir Finnur en mælir eindregið með því að fólk prófið þessa og bjóði upp á með kaffinu.

Finnur er á leiðinn, ásamt liðsfélögum sínum, á Norðurlandamótið í …
Finnur er á leiðinn, ásamt liðsfélögum sínum, á Norðurlandamótið í bakstri sem haldið verður í Þýskalandi, í Berlín í lok vikunnar. mbl.is/Eyþór Árnason

Marsipan- og jarðarberjatertan hans Finns

Massarínubotn

  • 200 g sykur                           
  • 200 g Odense marsipan       
  • 200 g smjör við stofuhita    
  •  3 stk. egg                              
  • 100 g hveiti                           
  • ½ tsk. lyftiduft                                  
  • Sítrónubörkur af einni sítrónu 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 170°C.
  2. Setjið sykur í hrærivélaskál og hrærið með spaðanum (K- spaðann) og setjið marsipanið út í í nokkrum hlutum.
  3. Bætið við smjörinu og þeytið hratt í um það bil 2 mínútur.
  4. Bætið síðan eggjunum út í einu í einu, á miðlungs hraða og þeytið aftur í 2-4 mínútur eða þar til blandan er orðin mjög létt í sér. Gott að skafa niður kantana svo allt blandist jafnt.
  5. Blandið síðan restin af hráefnunum saman við og setjið í 24-28 cm smelluform og setjið smjörpappír í botninn.
  6. Setjið formið inn í ofn og bakið í 35-45 mínútur eða þar til að botninn er bakaður í gegn. Þið getið tekið stöðuna á því með því að stinga litlum hníf eða prjón í miðjan botninn og ef hann kemur hreinn út er botninn tilbúinn.

Ofan á kökuna

  • 500 ml rjómi                         
  • 2 msk. vanillusykur              
  • 400 g jarðarber                     
  • Límónubörkur eftir smekk (má sleppa)

Aðferð:

  1. Þeytið rjómann og bætið síðan vanillusykrinum við.
  2. Setjið rjómann ofan á botninn, Finnur settur rjómann í sprautupokaog sprautar honum ofan á. En það má líka setja hann á með sleikju.
  3. Skerið berin niður og dreifið fallega yfir rjómann.
  4. Síðan má rífa niður límónubörk yfir ef vill sem gefur smá lit og beiskan keim.
  5. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka