Blómkálsæðið: Blómkálshaus með ostasósu og vorlauk

Landinn hefur tekið ástfóstri við blómkál og það má segja …
Landinn hefur tekið ástfóstri við blómkál og það má segja að blómkálsæðið sé að ryðja sér til rúms. Samsett mynd

Nýjasta æðið í dag er blómkálsæðið, það er ekki agúrkuæðið heldur er það ný uppskera að blómkáli sem heillar landann upp úr skónum í dag. Blómkál er farið að skipa sér sterkan sess í matarmenningunni á Íslandi og það er sérstaklega þessi smáréttur sem hefur slegið í gegn. Reyndar er hægt að framreiða réttinn með nokkrum útfærslum en þetta er eitt af því sem nýtur mikilla vinsælda, blómkál í ostasósu og síðan er það annaðhvort toppað með vorlauk, sprettum, parmesanosti og nachos.

Blómkálshaus með ostasósu og vorlauk

  • 4-5 dl þurrt freyðivín
  • 1 ½ l vatn
  • 1 dl ólífuolía
  • 2 msk. safi úr ferskri sítrónu
  • 1 msk. safi úr ferskri límónu
  • 2 msk. mjúkt smjör
  • 1 msk. chiliflögur
  • 1-2 lárviðarlauf
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 1 blómkálshaus að eigin vali, hann má vera bleikur, gulur eða hvítur
  • ½ búnt vorlaukur, til skrauts eftir bakstur
  • Sprettur til skrauts ef vill.

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 220°C hita.
  2. Setjið freyðivín, vatn, ólífuolíu, sítrónusafa, smjör, chiliflögur og lárviðarlauf saman í pott.
  3. Látið suðuna koma upp og kryddið til með salt og pipar ef vill.
  4. Setjið síðan blómkálshausinn út í og látið sjóða í um það bil 20 mínútur eða þar til blómkálshausinn verður mjúkur.
  5. Takið hausinn þá úr pottinum, þerrið með eldhúsbréfi og setjið síðan á bökunarplötu klædda bökunarpappír.
  6. Setjið plötuna inn í ofn og bakið blómkálshausinn í um það bil 40 mínútur eða þar til hann hefur tekið á sig fallegan lit.
  7. Meðan blómkálið bakast í ofninum er lag að útbúa ostasósuna, sjá uppskrift hér fyrir neðan.

Ostasósa

  • 100 g hreinn rjómaostur
  • 100 g geitaostur, mjúkur
  • 90 g salatostur
  • 20-30 g rifinn parmesanostur
  • 70-80 ml rjómi
  • 2 msk. ólífuolía
  • Sjávarsaltflögur eftir smekk
  • Pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Þeytið vel saman rjómaost, geitaost, salatost og parmesanost ásamt rjómanum.
  2. Bætið við ólífuolíu, má vera meira eða minna ef ykkur finnst það passa.
  3. Kryddið til eftir smekk.

Samsetning:

  1. Setjið síðan blómkálshausinn á fallegan disk, fat eða viðarbretti sem ykkur finnst eiga við tilefnið.
  2. Kryddið hausinn með chiliflögum og öðru kryddi sem ykkur finnst passa.
  3. Setjið örlitla ólífuolíu ofan á hausinn og að lokum dreifið vorlauk yfir blómkálshausinn eftir smekk og leyfið honum líka að fara á diskinn, fatið eða brettið sem hausinn er á. Skreytið með sprettum.
  4. Berið fram með ostasósunni.
  5. Eða farið hina leiðina og hellið ostasósunni yfir blómkálshausinn og leyfið vorlauk og sprettum að skreyta réttinn.
  6. Síðan er líka hægt að mylja niður nachosflögur og dreifa yfir hausinn með ostasósunni.
  7. Allt saman syndsamlega gott og gaman er að bera fram girnilega blómkálsrétt á þessum árstíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert