Ofnbakaður fiskur í ostasósu að betri gerðinni

Ljúffengur ofnbakaður fiskur í ostasósu sem bragð er af.
Ljúffengur ofnbakaður fiskur í ostasósu sem bragð er af. Ljósmynd/Erna Sverrisdóttir

Góður fiskréttur er kærkominn alla daga og fátt betra en að fá sér fisk eftir annasaman vinnudag. Þessi fiskréttur er að betri gerðinni en það gerir osturinn, í ostasósunni er Dala kastali og persónulega finnst mér best að vera með hvítan þar sem ég er ekki hrifin af blámylguosti. En smekkur manna er misjafn. Nú er líka ný uppskera komin í verslanir af spergilkáli og gott að nýta uppskeruna í rétti sem þessa. Þá má líka skipta út spergilkálinu og vera með blómkál sem nýttur mikilla vinsælda þessa dagana og steinliggur í ostasósu. Uppskriftin kemur úr smiðju Ernu Sverrisdóttur matgæðing en uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.

Ofnbakaður fiskur í ostasósu

Fyrir 4

  • 600 g hvítur fiskur (t.d. þorskur, ýsa eða blálanga) skorinn í bita
  • 250 g spergilkál, skorið í smáa knúpa
  • 2 ½ dl   rjómi
  • 100 g     hvítur eða blár Dala Kastali
  • 4 msk. möndluflögur, má sleppa ef vill
  • Smjör, eftir smekk og þörfum
  • sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 225°C hita.
  2. Raðið fiskbitunum í eldfast mót smurt með smjöri.
  3. Saltið og piprið eftir smekk.
  4. Sjóðið spergilkálið í eina mínútu og látið vatnið síðan renna vel af því.
  5. Setjið á milli fiskbitanna og hellið rjómanum yfir.
  6. Myljið ostinn yfir og sáldrið möndlunum ofan á ef þið viljið hafa þær með.
  7. Setjið mótið með fiskréttinum í inn í ofn og bakið í 20 mínútur eða þar til osturinn fer að krauma og brúnast.
  8. Berið fram með fersku salati og grjónum ef vill.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka