Teitur Riddermann Schiöth býður upp á helgarkokteilinn að þessu sinni sem dregur innblástur sinn úr íslenskri náttúru og ber heitið Móafellshyrnu Súr. Kærkomið er að fá alíslenskan kokteil sem heitir íslensku nafni.
Teitur er forseti Barþjónaklúbbs Íslands og skipuleggjandi stærstu kokteilahátíðar landsins, Reykjavík Cocktail Weekend. Teitur hefur komið víðs vegar að í greininni og unnið til fjölda verðlauna. Núna einbeitir hann sér aðallega að því að taka virkan þátt í að efla barmenningu á Íslandi með því að skipuleggja viðburði, keppnir og sinna dómgæslu. Teitur var í fyrra skipaður af Alþjóða barþjónasamtökunum (IBA - International Bartending Association) til þess að sinna dómgæslu á Heimsmeistaramótum barþjóna og mun hann sinna þeirri stöðu á heimsleikunum sem fara fram í Madeira, Portúgal núna í lok október. Einnig mun hann sinna stöðu leiðangursstjóra hjá íslensku sendinefndinni til Madeira, og mun fylgja Íslandsmeistaranum í kokteilagerð út til þess að ná í gullið eins og hann segir sjálfur frá.
Barþjónaklúbburinn (B.C.I.) var stofnaður árið 1963 og á hann sér mikla og langa sögu. Hann hefur verið hornsteinn íslenskrar barmenningar frá stofnun, en markmið klúbbsins samkvæmt lögum hans er að efla og bæta starf og menntun barþjóna með því taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi barþjóna. Áhugasamir geta lesið um aðdraganda að stofnun og sögu klúbbsins hér.
Kokteillinn hans Teits á sér sögu og innblásturinn fékk Teitur á einstaklega fallegum stað. „Kokteilinn hannaði ég árið 2019 og dregur hann innblástur sinn úr íslenskri náttúru, en þá starfaði ég á sveitabæ sem flestir þekkja undir heitinu Deplar Farm. Þar var ég umluktur náttúrufegurð sem var engu lík. Fyrir þá sem ekki vita er Deplar Farm lúxus ævintýrahótel sem staðsett er í Fljótunum fyrir norðan. Af hverju segi ég þá að þetta sé sveitabær? Jú, hótelið var hannað eftir gamla bænum sem stóð vel og lengi á landinu. Landið sem Deplar stendur á er göfugt og stórt en yfir bænum gnæfir undurfagurt þríhyrningslaga fjall sem ber heitið Móafellshyrna. Í borðstofu Depla er gluggi sem rammar fjallið fullkomlega, þannig að það fyrsta sem ég sá á morgnana er ég labbaði inn í stofuna var fjallið fagra. Kokteillinn dregur innblástur sinn af fegurð fjallsins og er líka snúningur (tvist) á klassískum ,,Sour'', þannig heitir kokteillinn Móafellshyrnu Súr. Áfengið í kokteilnum er hvannargin og bláberjalíkjör frá Reykjavík Distillery. Reykjavík Distillery er aðili að Samtökum íslenskra eimingarhúsa, sem er gæðastimpill sem sannar það að vörur séu í raun íslenskar. Ég mæli með að lesendur kynni sér samtökin og hvað þau standa fyrir, því það er mikið af vörum á markaðnum sem eru markaðssettar sem íslenskar en eru það í raun ekki,“ segir Teitur.
„Fyrir sýru í kokteilinn notum við ferskan sítrónusafa. Ég mæli alltaf með að nota ferska safa við blöndum kokteila, þar sem himinn og haf á milli ferskleika kokteila sem nota ferska safa annars vegar og keypta safa hins vegar. Til þess að jafna út sýruna notum við svo einfalt sykursíróp (simple syrup) í hlutföllunum 1,5 sykur á móti 1 af vatni. Til þess að bæta áferð kokteilsins og fá fallega froðu notum við annaðhvort eggjahvítu eða kjúklingabaunasafa (aquafaba). Ég er farinn að hallast að því að nota kjúklingabaunasafa, sem er í raun bara safinn sem sigtaður er frá kjúklingabaunum úr dósinni. Áhrifin eru nákvæmlega þau sömu, en þú losnar alfarið við eggjahvítulyktina sem getur myndast ef þú notar kjúklingabaunasafann. Mikilvægt er þó að hrista kokteilinn tvisvar, þá með klaka og síðan án, til þess að freyða drykkinn upp og leysa þá upp eggjahvítuna, ef við notum hana, einnig má hrista hann fyrst án klaka og síðan með. Drykkurinn er tvísigtaður í túlípana eða klassískt kampavínsglas og skreyttur með bláberjum á pinna, hægt er að dýfa berjunum í kokteilinn og njóta með. Svo má að sjálfsögðu skipta út bláberjum úr matvöruverslun fyrir bláber eða aðalbláber úr íslenskri náttúru,“ segir Teitur að lokum og skálar.
Móafellshyrnu Súr
Aðferð:
Sykursíróp
Aðferð: